Skyggnst á bak við ský

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1999
Flokkur: 

Í Skyggnst á bak við ský eru eftirtaldar greinar auk inngangs: Paradísar missir Jónasar Hallgrímssonar, s. 13 - 66 Skáldið og ástarstjarnan, s. 67 - 273 Ljós og litir í Alsnjóa, s. 275 - 307 Gunnlöð og hinn dýri mjöður, s. 309 - 341 

Úr Skyggnst á bak við ský:

Skáldið og ástarstjarnan


Í kvæði Jónasar, Ásta, birtist viðhorf hans til íslenskunnar. Lítið hefur verið fjallað um Ástu í ritum en kvæðið varpar svo mikilvægu ljósi á Ferðalok að ég hlýt að fjalla nokkuð ítarlega um það hér. Ásta er ljóð til íslenskrar tungu ekki síður en ljóð um tunguna. Í Ástu birtist grunnhugmynd Jónasar um hin lífrænu tengsl milli tungu, jarðar og sólar sem er einn hornsteinanna í hugmyndafræði Ferðaloka. Eiginhandarrit af Ástu er ekki til en kvæðið var fyrst prentað í Fjölni 1843. Ásta er þrjú erindi og mun almennt talið fjalla um móðurmálið enda ávarpar skáldið íslenskuna í upphafi: „Ástkæra, ylhýra málið”. Gerð kvæðisins er þó flóknari en virðist við fyrstu sýn. Ljóðmálið tekur allmiklum breytingum í öðru og þriðja erindi og þar birtist persónulegri afstaða til yrkisefnisins. Upphafserindið er ort á einföldu ljóðmáli með hefðbundinni líkingu þar sem málinu er líkt við blíða rödd móður sem kveður við brjóstabarn. Miðerindið, sem beint er til kvenverunnar Ástu, er hins vegar fjarri því að vera jarðbundið eða efniskennt. Henni er lýst á upphöfnu og háfleygu skáldamáli uns hún myndhverfist í sól. Báðar eru þær af sama meiði, Ásta og ástkæra málið, og eiga nafnið sameiginlega, en skáldskaparaðferð Jónasar sýnir þó mismun greinanna, málið í upphafserindinu er daglegt mál sem við drekkum í okkur með móðurmjólkinni en Ásta er persónugervingur hins myndræna og guðlega skáldskaparmáls sem skáldið verður að tileinka sér með því að nema það af vörum hennar og er því lýst í lokaerindinu. Ásta verður þar að nokkurs konar lærimeistara í skáldskaparfræðum, kveikja orðanna, og því réttnefnd skáldskapargyðja. Umritanir og líkingar eru teknar af sólinni einni og af henni eru þrjár útgáfur, „ástarsól”, „heimsaugað hreina” og „helgasta stjarnan”. Ásta sjálf nærist af ástarsólinni sem er jafnframt innra með henni:

Veistu það, Ásta! að ástar
þig elur nú sólin?
veistu að heimsaugað hreina
og helgasta stjarnan
skín þér í andlit og innar
albjört í hjarta
vekur þér orð sem þér verða
vel kunn á munni?

 Í þessu erindi virðist mér lýst einhvers konar samruna Ástu og sólarinnar; sólin skín henni albjört í hjarta. Hugtökin, sem þessar þrjár einkunnir sólar miðla, eru ást, hreinleiki og helgi. Ásta í öðru erindi kvæðisins virðist því himneskrar eða guðlegrar ættar. Hún er sjálf eins konar veröld sem hýsir ástarsól („albjört í hjarta”) jafnframt því sem þessi sama ástarsól elur hana og skín á hana. Hér er greinilega á ferð svipað myndmál og Jónas notar til að lýsa veröld sinni í Ferðalokum, sem er glædd guðs loga, [...]

(s. 137-138)

Gunnlöð og hinn dýri mjöður
 Hvað varðar mjöðinn sjálfan er vert að gefa því gaum að hann er hvergi tengdur skáldskap í Hávamálum né ætlaður skáldum og fræðamönnum sérstaklega eins og í Snorra-Eddu. Hann er hvergi nefndur annað en ,,hinn dýri mjöður í þeim tveimur erindum er hann kemur við sögu, 105. erindi og 140. erindi. Hinn dýri mjöður Hávamála gat því gegnt öðru hlutverki en að gera menn að skáldum eða fræðimönnum.
 Geti maður stillt sig um að lesa inn í málið með því að seilast til Snorra kemur í ljós að það er næsta fátt sameignlegt með frásögnunum. Auk nafnsins Óðrerir eru atriðin í rauninni aðeins tvö, Gunnlöð samrekkir Óðni og gefur honum mjöð að drekka. Og ólík er framsetningin. Í Hávamálum er þetta stórbrotið svið og frjálslegt: kona á gullnum stóli skenkir Óðni dýran mjöð sem hann virðist hafa unnið til með ágæti sínu og frama að undangengnum helgum eiði. En í frásögn ritsnillingsins Snorra er þessum atriðum þröngvað í tveimur setningum inn í nánast lofttómt umhverfi, og stílinn er jafn lífvana og sviðið, þurr upptalning atriða sem skotið er inn á milli fjörlegra og ýkjukenndra goðsögulegra frásagna þar sem fjölkynngi og myndbreytingar ráða ferðinni. Skyldi Snorri hafa sleppt svo myndrænum og mikilfenglegum atriðum sem gullstól og baugeiði hefði hann þekkt til þeirra?
 En jafnvel þó að inntak sögunnar í Hávamálum hafi glatast á langri vegferð til Snorra er þó ljóst af þessu að atriðin tvö eru lykilatriði sem hafa varðveist saman og hljóta því að vera innbyrðis tengd. Séu þau ekki skoðuð í samhengi leiðumst við á villigötur.
 Með þetta veganesti liggur leiðin í keltneskan sagnaarf um fornar konungsvígslur. Í þessum írska sagnaflokki finnum við ekki aðeins athöfn sem felur í sér bæði lykilatriðin úr Gunnlaðar-goðsögunni, þ.e.a.s. konu (gyðju) sem veitir konungsefni (eða hetju) mjöð og samrekkir honum, heldur og gullstólinn eða ígildi hans. hásætið. Gyðjan eða gersónugervingur hennar nefnist Sovereignty, þ.e.a.s. valdhafi og með helgu brúðkaupi veitir hún konungi umboð til að ríkja. Þessara keltnesku sagna sér víða stað í evróskum miðalabókmenntum og þær urðu uppistaðan í sögunum um Graal-leitina, Eyðilandið og hinn ríka Fiskikóng, en rannsóknir fræðimana í keltneskum og indverskum fræðum sýna að hér er um að ræða alþjóðlegt sagnaminni sem er mjög útbreitt með indó-evrópskum þjóðum og má rekja feril þess í heimildum og sögnum aftur í gráa forneskju Austurlanda.

(s. 314-315)