Ský

Höfundur: 
Útgefandi: 
Ár: 
1990
Flokkur: 

Útvarpsleikrit flutt í Útvarpsleikhúsinu 1990.

Sviðsuppfærsla:

Leikfélag Hveragerðis 1992.

___________________________________________

Úr Skýi:

EIRÍKUR:
Mikið getur nú himinninn orðið blár á þessu landi. Og skýin hvít. það var alltaf þetta sem ég saknaði mest þegar ég var í siglingum. þessi birta. Á heimsiglingum fylgdist ég með hvernig himinninn breyttist dag frá degi, frá einni stund til annarrar. Hvernig þessi himneska birta færðist yfir. þegar ég sá jökulinn rísa eins og himnaríki úr hafi var ég kominn heim. Einhver tilfinning sem hríslaðistum mig allan. Kannski var ég hamingjusamastur á þeim stundum. Án þess að hafa hugmynd um það. BIRNA: Mín hamingja var öll bundin við þig.

EIRÍKUR:
Enginn getur átt annan.

BIRNA:
þú áttir mig.

EIRÍKUR:
það var skelfilegt.

BIRNA:
Já. það var skelfilegt.

EIRÍKUR:
Samt elskaði ég þig. Elska þig ennþá.

BIRNA:
Karlmenn elska ekki.

EIRÍKUR:
Ég elskaði þig. Ég elska þig núna.

BIRNA:
Má vera. Á þinn hátt. Kannski elska karlmenn bara öðruvísi en konur.

EIRÍKUR:
Sennilega gera þeir það.

BIRNA:
Karlmenn eru undarlegar skepnur, þegar allt kemur til alls. Og ennþá undarlegra að konur skuli ekki uppgötva það fyrr en þær eru dauðar. þeir elska ekki. Þeir gráta ekki. Þeir segja ekki sannleikann. Sumir sofa ekki einu sinni. Þeir taka sér eitthvað fyrir hendur, en hugurinn fylgir ekki máli. Hendur þeirra eru kaldar. Svo eru þeir þjakaðir af samviskubiti yfir að vera eins og þeir eru, yfir að vera ekki eins og þeir ímynda sér að þeir ættu að vera. Og þó ættu þeir ekki að vera neitt öðru vísi en þeir eru. Þeir reyna. Eða þykjast reyna. Þykjast vera annað en þeir eru. Og það er svo undarlegt að konur elska þá eingöngu þegar þær sjá í gegn um þá. Það er eins og það færi þeim einhverja öryggiskennd að sjá í gegnum þá, að vita að þeir eru jafn óheilir og þeir eru. Samt hafa þær aldrei hugmynd um hvers vegna þær elska þá. Einhversstaðar er einhver fáránleg mótsögn í þessu öllu saman.

EIRÍKUR:
Karlmenn eru farmenn í eðli sínu. Þeir fylgja sólinni. Skila sér heim í jökulinn á vorin.

BIRNA:
(Hlær að þessu). Þú varst að minnsta kosti í eilífu fríi frá öllum vanda.

EIRÍKUR:
Það er satt! Aldrei viðstaddur. þó búkurinn væri á staðnum var hugurinn annars staðar. Ég var meira að segja fjarverandi á mestu sælustundum lífs míns!

BIRNA:
Fjarverandi öllum stundum.

EIRÍKUR:
Eitt sinn komst ég . . . nálægt því að skilja . . . eitthvað. Ég veit ekki hvað. Kannski mína eigin fátækt. Sennilega var fátæktin það eina sem ég átti. Ég er að tala um annars konar fátækt.

BIRNA:
Ég veit hvað þú átt við.

EIRÍKUR:
Það var eftir að þú . . . fórst. Ég kom í húsið okkar um nótt. Ég var þá hættur á bátnum, búinn að selja húsið. Húsgögnin farin suður. Húsið stóð autt, tunglskin inn um suðurgluggana. Og það var svo kyrrt, svo óhugnanlega kyrrt. Ég gekk inn og stansaði innst á ganginum, hélt niðri í mér andanum til að trufla ekki kyrrðina. þá heyrði ég það duttu dropar úr eldhúskrananum í vaskinn, bara dropar, einn af öðrum með löngum hléum. Ég varð stjarfur. Ég settist á gólfið og hlustaði, hlustaði bara, lengi. Og smám saman . . . kom yfir mig . . . depurð, einhver mikil depurð sem óx eftir því sem fleiri dropar duttu í vaskinn. Svo veit ég ekki hvað gerðist, hlýt að hafa gleymt mér, en ég vissi ekki fyrr en tárin voru farin að streyma niður kinnar mínar. þegar tók að birta af degi var ég hágrátandi, einn í auðu húsinu og grét eins og hvítvoðungur. Ég hef aldrei hugsað út í það fyrr en núna, en ég var ekki að gráta út af þér. Nei. Ég var að gráta út af mér. Ég veit það núna. Og þeirri ást sem ég var ófær um að finna fyrir, hvað þá að veita. Ég sigldi með skipinu um morguninn og hef ekki komið í plássið síðan. Kannski komst ég þarna næst því að vera . . . viðstaddur . . . eða hvað það heitir . . . vera á lífi.