Skuggarnir í fjallinu

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Úr Skuggunum í fjallinu:

- Finnurðu voða mikið til? spyr Sara full samúðar á leiðinni upp á spítala. - Já, ég kvíði líka svo mikið fyrir að láta draga tönnina úr mér. Pabbi tók eina framtönnina með skeið um daginn og það var svo agalega sárt, segir Una.
- Uss, það er allt öðruvísi þegar alvöru læknar taka tennur, segir Sara. Í fyrra fór ég til tannlæknis í Reykjavík af því að ég var með eina holu. Ég vona sko að ég verði komin með aðra holu þegar ég fer þangað næst, það var svo gaman.
- Hvernig gaman?
- Sko, hann var með stól sem fór upp og niður og hann leyfði mér að fara þrjár bunur í honum. Ég held það hafi verið eins og að vera í flugvél.
- Heldurðu að læknirinn sé líka með svona stól?
- Auðvitað, annars gæti hann ekki tekið tennur úr fólki. Brúnin á Unu léttist við þessi tíðindi og verkurinn í tönninni skánar aðeins.
Þegar þær koma upp á spítala er læknirinn eitthvað upptekinn og þeim er vísað inn í herbergi og sagt að bíða. Það eru engir stólar í herberginu, bara hár legubekkur og ljósalampi hjá.
- Þetta er ljósastofan, ég var einu sinni í ljósum hérna, segir Sara.
Þær standa þarna dálitla stund og eru að byrja að þreytast í fótunum þegar læknirinn kemur eins og stormsveipur í hvíta sloppnum sínum.
- Jæja, stúlkur litlu, stúlkur litlu, hvað er að, hvað er að? spyr hann.
- Ég er með tannpínu, segir Una.
- Gapa, gapa, segir læknirinn og keyrir höfuðið á henni aftur á bak. Svo hleypur hann fram og kemur aftur með ógnarstóra töng.
- Gapa, gapa, áréttar hann.
Una gapir svo að hún riðar á fótum, læknirinn læsir tönginni um tönnina og kippir í. Ofboðslegur sársauki fyllir vitund Unu. Hann byrjar upp í munni og nær alveg niður í hæla. En þetta tekur enga stund. Læknirinn heldur á blóðugri tönninni andartak og fleygir henni svo í ruslafötuna.
- Allt búið, stúlka litla, allt búið, segir hann og ýtir þeim út. Una er vandræðaleg.
- Ég er ekki með neina peninga, segir hún.
- Kostar ekkert, kostar ekkert. Fara heim, heim, segir læknirinn.
Þær flýta sér út. Una skyrpir rauðu.
- Er það nú, hann lét þig ekki einu sinni setjast, segir Sara.
- En það kostaði ekkert, segir Una og skyrpir aftur.

(s. 60-61)