Skuggar af skýjum

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1977
Flokkur: 

Úr Skuggum af skýjum:


Hún sat í hægindastólnum, og hafði glasið sitt á armbríkinni milli fingra beggja handa, og lék sér að því undir myndinni af dreymandi prinsinum á röndótta teppinu í skóginum meðan hesturinn beit ljónið meðal blóma, og skýin voru einsog bláir drekar; og dökkgrá slangan vafðist upp eftir trénu. Maðurinn settist á bríkina, og tók frá henni glasið til að geta kysst hana. Snöggvast voru varir hennar einsog ostur, síðan ostrur, hugsaði hann með undarlegan hlátur bældan í sér unz tunga hennar slökkti þann hlátur og sameinaði hann sjálfum sér í lönguninni til hennar, og þau fundust. Og blómin uxu rauð og blá út úr myndfletinum, og hvolfdu bikurum sínum yfir þessar tvær manneskjur; þessar tvær ókunnugu manneskjur sem voru að reyna að kynnast með örvæntingarfullum hætti, og ofsa.
Dúrga-púj nóvemberhiminsins var dökkt með þjótandi skýjum bólgnum.
Hann vaknaði við hlið þessarar konu sem svaf, allt var svo kyrrt. Andlit hennar var mjúkt og opið, af því var strokinn allur veizlugleðilegleikinn; nú virtist hún ung með hreinleika sem var óvæntur. Hver var þessi kona? Hvers vegna var hann hér? Hann vissi ekki hvernig hann var hingað kominn. Andlitið var stórt, og svo nálægt honum að hann svimaði við að reyna að sjá það; og lokaði öðru auganu til þess að reyna að ná mynd þess óbrjálaðri. Andardráttur hennar kom á hann, hitinn af henni leiddist um líkama hans; hann var dapur.
Svo sofnaði hann. Þegar hann vaknaði aftur rumskaði konan, og sneri sér síðan til veggjar; þar sem furstinn svaf enn á ábreiðunni randalín; og hesturinn var ekki hættur að bíta ljónið; aumingja ljónið, slangan enn í trénu, og horfði með sínum örsmáu augum á hann. Bak hennar var sjálfstætt landslag í þessu herbergi, og nóttin hafði gránað úti. Æska hennar myndi fölna, formin voru farin að slakna; hún verður feit og kannski subbuleg undir málverkinu sem sífellt þarf að auka við til að fela meira og meira. Og þetta síða ljósa hár týnir gljáa sínum og lífi, og verður þurrt og ljómalaust, tært af gervilitum.
Dautt.
Hann læddist fram úr, og klæddist. Í speglinum í baðherberginu sá hann andlit sem honum þótti hann þekkja. Hvar var þá hitt andlitið sem hafði fjötrað hann? Gríman sem hafði haldið honum fanga, og teygt vald sitt inn í huga hans. Þetta var þreytt andlit og dapurt, og heimurinn var grár; hann bjóst ekki við að sjá þessa konum aftur.
Þegar hann kom út á götuna fann hann í vasa sínum varalit, augnabrúnasvertu, augnalokabláma. Hvers vegna? Hvernig hafði þetta borizt í vasa hans? Hann mundi ekkert allt frá því hann hafði setið við barinn og mundi að hann hafði haldið höndum sínum yfir svartri borðplötunni og . . .

(s. 158 - 159)