Skugga-Baldur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2003
Flokkur: 


Af bókarkápu:

Skugga-Baldur er rómantísk saga sem gerist um miðja 19. öld. Aðalpersónurnar eru presturinn Baldur, grasafræðingurinn Friðrik og vangefna stúlkan Abba sem tengist lífi og örlögum mannanna tveggja með afdrifaríkum hætti. Sjón sýnir í þessu verki á sér nýjar og óvænta hliðar og vinnur með skemmtilegum hætti úr íslenskri þjóðsagnahefð.


Úr Skugga-Baldri:

Þegar Friðrik B. Friðjónsson kom ríðandi að sunnan með hina skringilegu vinnukonu sína, og settist að búi í föðurarfleifð sinni að Brekku, þá þjónaði í Dalsókn úrsérgenginn maður sem kallaðist síra Jakob „með sjáaldrið“, og var Hallsson, en hafði á barnsaldri tekið úr sér annað augað með öngli.
 Pokaprestur þessi var svo illu vanur af sóknarbörnum sínum – áflogum, búkhljóðum og framíköllum - að hann þóttist ekki heyra það þegar Abba tók undir með honum í altarisþjónustunni, en það gerði hún bæði hátt og snjallt, og hélt aldrei lagi. Hann hafði meiri áhyggjur af því að forsöngvarinn drukknaði í spýju sveitunga sinna. Sá var bóndi að nafni Gilli Sigurgillason frá Barnahömrum, raddsterkur maður sem söng með rykkjum og hnykkjum, og gapti svo í háu tónunum að sá ofan í kok í honum, en kirkjugestir léku sér að því að henda upp í hann blautum tóbakstuggum - og voru margir orðnir ansi hittnir.
 Fjórum árum síðar dó síra Jakob, og söfnuðurinn sá mikið eftir honum; var honum lýst sem ófríðum og leiðinlegum, en barngóðum manni.
 Arftaki hans var séra Baldur Skuggason, og með honum upphófust aðrir tímar í kirkjusiðum í Dal. Menn sátu kyrrir á bekkjunum og héldu kjafti á meðan prestur flutti þeim boðskapinn, enda búnir að kynnast því hvernig hann fór með óróaseggi; hann stefndi þeim til fundar við sig eftir guðsþjónustu, fór með þá bak við kirkju og barði þá. En konurnar urðu heilagar frá fyrsta degi og létu sem þær hefðu aldrei tekið þátt í að hrekkja sírann „með sjáaldrið“. Þær sögðu þetta mátulegt á dónana sem þær voru giftar eða trúlofaðar, og hefði átt að hýða þá fyrir löngu; enda nýi presturinn barnlaus ekkjumaður.
 Gilli frá Barnahömrum söng nú hærra en nokkru sinni fyrr, á fleygiferð eins og bullustrokkur, og með galopinn munninn. En Friðrik var beðinn um að skilja Öbbu eftir heima; guðsorðið varð að ná eyrum safnaðarins „ótruflað af fábjánans rausi“ eins og séra Baldur orðaði það eftir fyrstu og einu messuna sem Abba sótti hjá honum.
 Honum varð ekki hnikað með þetta; hann vildi ekki sjá hana nálægt sér. Og ekkert hinna nýsiðuðu og vel flengdu safnaðarbarna varði málstað einfaldrar konu sem þekkti enga betri skemmtun en að sparibúa sig og sitja í kirkju með öðru fólki.

(s. 73 - 75)