Skot

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Um bókina:

Skáldsaga Rögnu Sigurðardóttur, Skot, segir frá Margréti sem búsett er í Rotterdam í Hollandi og fylgju hennar Bokka. Dag nokkurn, nánar tiltekið þann 27. apríl 1997, rekst hún á hinn fríða og sjarmerandi Arno í bókabúð, tekur hann heim og flekar hann, en þegar hún fylgir honum út á götu er hann skotinn niður fyrir framan hana. Bæði heilluð og skelkuð leggur Margrét út í leit að morðingja, leit sem er um leið leit að einskonar mynd af manninum sem er faðir ófædds barns hennar, því hún er ólétt eftir fyrsta skot.

Úr Skoti:

Ostrumaðurinn

Þegar ég opna augun sit ég á steini og horfi út eftir fjörunni.
Sólríkur dagur, mávar fljúga yfir mér, gola stendur af hafi og færir lykt af sjó og þangi. Ég horfi á blikandi öldurnar.
Sólin er hlý og ég sit kyrr dágóða stund. Stend svo upp og fikra mig stein af steini í átt að flæðarmálinu. Vitund mín er full af sjávargolu og sólskini, glitrandi hafi og heiðríkju.
Ég geng næstum á hann þar sem hann liggur á milli steina. Rétt næ fótfestu áður en ég stíg á brjóstkassann, íklæddan sömu hvítu skyrtunni og þá. Hann liggur í skjóli milli stórra sjávarsorfinna blágrýtissteina. Liggur á bakinu, friðsæll á svip. Skyrtan hans er skjannahvít í sólinni, þangið blásvart í kringum hann. Ég klifra niður á milli steinanna og krýp í þanginu við hlið hans. Það er háfjara og það brakar í þurru þanginu. Ég strýk yfir skyrtuna hans skjannahvíta, legg lófann á háls hans í þeirri von að hann sé aðeins sofandi, og verð fyrir vonbrigðum þegar ég finn svala húð hans undir fingrunum. Teygi svo fram höndina og strýk aftur gegnum hárið eins og þá, mjúkt, en núna kalt. Strýk aftur og aftur, og finn trega koma upp í mér. Söknuð eftir því sem ég kynntist ekki, eftir þeirri hlýju sem stafaði af honum, hlýju sem ég hafði aldrei áður fundið.

(bls. 46)