Skjaldbakan kemst þangað líka

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1984
Flokkur: 

Samið 1984 og endurskoðað 1988.

Uppfærslur:

Egg-leikhúsið, 1984.
Lilla Teatern, Helsinki, 1985.
Egg leikhúsið (ný uppfærsla á ensku), 1986.
Útvarpsleikhúsið, 1988.
Leikfélag Akureyrar, 1988.
The Luminous Group, New York, 1999.

Sviðsettur leiklestur:

New Perspectives Theatre Company og The Nottingham Playhouse, Nottingham Playhouse, Nottingham, 1999.

__________________________________________________

Úr Skjaldbakan kemst þangað líka (1984 / 1988):

WILLIAMS:
það er í þögninni sem það er. Og maður verður að vera einn ... aleinn. Og ekki ... grípa frammí fyrir þögninni … Ég er svo lánsamur að vera uppi einmitt núna, þegar varla getur heitið að búið sé að finna upp símann. Hann er að vísu kominn í gagnið, greyið. Hangir á veggnum og muldrar eitthvað af og til. Truflar ekki þögnina. Ég gef honum hornauga. Svara seinlega. Það lætur nærri að einu skiptin sem ég tala í síma séu þegar ég er kallaður til að sinna sjúkum … því ég er læknir.

POUND:
(Dauft hvísl í fjarska). það er allt of dauðalegt í kringum þig.

WILLIAMS:
(Gefur engan gaum að rödd Pounds). Ég er farinn að venjast bílunum. En þeir hafa líka hægt um sig. Enn sem komið er. þeir róta ekki veginum uppí loft, eins og mér skilst að þeir séu farnir að gera á ykkar tíð. Nei. Bílarnir á minni tíð hafa hægt um sig. Og bíða. þeir fara sér löturhægt og lyfta rykinu varlega af veginum … um eitt fet eða svo … og í loftinu tekur það nokkur vanburða vængslög eins og vönkuð hæna, en sest síðan varlega á veginn á nýjan leik. Já, ég lifi á andskoti merkilegum tímum. Ég man til dæmis … þögnina sem ríkti hér áður. Hún var full af hljóðum einfaldleikans. þögn með stöku plógjárni, ellegar gufuvél langt í fjarska. Og ég hef fylgst með hvernig þögnin hefur látið treglega undan … allri tækninni … sem smám saman hefur verið að smokra sér inní hana. Já. Og hún smokrar sér ofurvarlega innfyrir, tæknin, vegna þess að hún vill ekki ýta við tortryggninni. Enda er það víst svo á ykkar tíð, að tortryggnin er rétt að rumska, þegar tæknin er búin að koma sér rækilega fyrir og jafnvel búin að taka völdin. En á minni tíð er valdabaráttan ekki einu sinni hafin … Ja … jú … kannski … Baráttan er hafin … en það stríð er uppfullt af afsökunarbeiðnum og kurteisi og allt getur ennþá gerst. Og tæki og tól eru ennþá bara tæki og tól, til að flytja eitthvað einfalt og nauðsynlegt milli manna. Flytja hugsun frá vilja til verks. Flytja boð frá manni til manns, eða flytja mann til annars manns … og alls ekki hraðar en hann gæti gengið. þannig er það í þessu landi, í þessu héraði, í þessum smábæ. Allt er í mótun. Og enn er ekki búið að finna orð yfir hvað er í mótun. Öll reynsla er enn mállaus. þessi heimur er óskrifað blað.