Skipið

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Um bókina:

Óveðursský hrannast upp og eldingar rista himininn þegar fraktskipið Per se leggur úr höfn á Grundartanga og tekur stefnuna á Suður-Ameríku. Níu skipverjar eru um borð, flestir með eitthvað misjafnt í farteskinu. Nokkrir mannanna hafa heyrt að segja eigi upp áhöfninni og hyggjast því grípa til sinna ráða um leið og storminn lægir. Andrúmsloftið í skipinu er þrungið tortryggni, ógn og fjandskap og þegar sambandið við umheiminn rofnar er eins og ill öfl taki völdin …

Úr Skipinu:

Jón Karl stígur út á götuna og réttir fram vinstri höndina. Bílstjórinn snarhemlar, kreppir hendurnar um stýrið og starir opinmynntur út um framrúðuna, fyrst á bólgið og blóðstokkið andlit svartklædda mannsins sem varnar honum vegar en síðan á skammbyssuna sem sá hinn sami lyftir upp og beinir að honum með útréttum handlegg.
“Út!” skipar Jón Karl og stígur til hægri án þess að hafa augun af bílstjóranum. Hann opnar dyrnar bílstjóramegin með vinstri hendinni og bíður eftir því að náfölur og stjarfur FM-hnakkinn stígi út úr upptjúnnuðu Imprezunni sinni.
“Ég, ég ...” stamar maðurinn og reynir að losa bílbeltið með skjálfandi hendi.
“ÚT! NÚNA!” öskrar Jón Karl og rekur hlaup byssunnar í vinstra eyrað á bílstjóranum sem kippist til og nær að losa sig úr beltinu.
Jón Karl grípur í öxl hans með vinstri hendinni og fleygir honum út úr bílnum og yfir á hinn helming götunnar.
“Ekki stela ... ekki,” vælir eigandi Imprezunnar og veltir sér yfir á fjóra fætur.
“Þegiðu!” segir Jón Karl og fleygir sjópokanum inn í bílinn áður en hann sest í bílstjórasætið og skellir á eftir sér. Hann leggur skammbyssuna frá sér í farþegasætið, slekkur á tónlistinni, kúplar sundur og setur gírkassann í fyrsta gír. En rétt áður en hann ekur af stað heyrir Jón Karl drungalegt vélarhljóð sem hann þekkir undir eins og fær hárin til að rísa aftan á aumum hnakkanum.
Hann lítur í baksýnisspegilinn og sér hvar svartur sendiferðabíll birtist eins og dauðinn sjálfur og nálgast á hraða fellibyls.

(60)