Skilningstréð: Uppvaxtarsaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1985

Úr Skilningstrénu 

Kristófer gerði það ekki endasleppt við mig þetta vor. Ég hafði verið með böggum hildar útaf klæðnaði þegar kæmi að þeirri langþráðu stund, að við bekkjarsystkinin fengjum stúdentsskírteinin afhent við hefðbundna athöfn á Sal sextánda júní. Var sú venja að heita mátti ófrávíkjanleg að karlpeningur kæmi smókingklæddur til þeirrar hátíðar, en á þvílíkum munaði hafði ég engin efni. Kristófer bað mig engar áhyggjur hafa af þessháttar smámunum, kvaðst eiga í fórum sínum smóking, skyrtu og þverslaufu sem hlytu að passa mér, enda kom á daginn að jakkinn var sem skraddarasniðinn á mig. Gat ég því mætt uppstrílaður með hvítkollótta stúdentshúfu í hendi einsog bekkjarbræðurnir til hinnar formföstu athafnar sem var þrungin eftirvæntingu og hátíðleik stundar sem markaði vatnaskil í lífi okkar.

 Eftir athöfnina var hópast niðrí trjágarðinn að baki Hressingarskálans þarsem tekin var ljósmynd af stúdentahópnum, áttatíuogfimm ungmennum sem horfðu grafalvarlegum augum í ljósop myndavélarinnar - utan ein stúlka sem tók sér það bessaleyfi að brosa.

 Síðan skrapp ég með strætó inní Herskólakamp til að heilsa uppá fjölskylduna og var hjartanlega samfagnað af Mörtu og systkinunum, en pabbi tók mér fremur fálega í fyrstu og lét þess getið kaldranalega, að klæðin skyldu stássleg eftir standinu og nú þættist ég líklega í stakk búinn til að vanda um við pupulinn. Þó sakbitinn væri sárnaði mér sneiðin og bjóst til að kveðja í styttingi, en þá skarst Marta í leikinn og bað pabba blessaðan hætta öllum hálfkæringi; hann gæti hvorteðværi ekki leynt stoltinu yfir syninum, þó hann væri með þessi ólíkindalæti.

Pabbi varð hálfkindarlegur við þessa óvæntu ofanígjöf og leit til mín íbygginn útundan sér, horfði á mig góða stund og reis snögglega á fætur við borðið, rétti fram höndina og sagði loðnum rómi:
 Jæja, Jakob minn, kannski er kominn tími til að gleyma gömlum væringum, hvort sem var í orði eða á borði.

 Ég gekk til hans og faðmaði hann að mér klökkur, reyndi að bæla niður grátstafinn í kverkunum.

Pabbi minn, fyrirgefðu mér allt sem ég hef gert þér til miska, stundi ég og fékk ekki hamið grátinn.

 Við strikum yfir fortíðina, sagði hann og þurrkaði sér um augun. Það ætlar að ásannast sem hún Gunna gamla sagði um árið: nafnvitjun er ekkert hégómamál. Og hefði ég þó svarið fyrir að þannig væri í pottinn búið. En auðnan er víst einhlítust, sagði hann og settist aftur.

 Ég hlammaði mér á stól við hliðina á honum og horfði tárvotum undrunaraugum á þennan óútreiknanlega mann sem mér þótti að sama skapi vænna um sem ég átti erfiðara með að skilja hann.

(s. 258-259)