Sigurður Pálsson : ritþing 28. apríl 2001

Höfundur: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Umsjón og samantekt: Jón Yngvi Jóhannsson.

Úr bókinni:

Kristján: Þegar menntaskólanum lýkur þá ákveður þú að mennta þig í bókmenntum og leikhúsfræði og ferð til Frakklands. Af hverju verður Frakkland fyrir valinu?

Ég veit það ekki. Ég var með ákaflega góða frönskukennara í MR. Fyrst Vigdísi Finnbogadóttur og síðan Magnús G. Jónsson. Það var sprenging í starfi listafélagsins á þessum tíma, það var alvöru félag, ekki bara innan skólans heldur fyrir almenning. Myndlista- og kvikmyndasýningar o.m.fl. og allt var þetta rekið á atvinnumennskubasis sem mér fannst ofboðslega nauðsynlegur. Ég hef aldrei þolað svona hálfkák heldur vil að hlutirnir séu gerðir í alvöru.

Talandi um kennara, sem voru ekki í skólanum heldur sem maður hitti á kaffihúsum, þá man ég eftir mönnum eins og Þórði Ben. Sveinssyni sem var í SÚM hópnum. Hann hafði alltaf tíma til að miðla af því sem hann var að kynna sér, hann var vel að sér í því sem var að gerast í extrem avant garde í Evrópu sérstaklega og reyndar í Ameríku og var að sýna manni furðulegar bækur og furðulega hluti frá flúxus hreyfingunni. Þetta eru svona hlutir sem móta mann, ekki bara lífið eða skólinn.

Ég var alltaf heppinn með góða kennara og einna f þeim var faðir minn. Hann var í parís 1926. Það grípur kannski eitthvað inn í, ég veit það ekki. hann var í framhaldsnámi eftir guðfræðina hér heima, fyrst í eitt ár í Þýskalandi og síðan í París.

Þegar ég kom til Parísar kunni ég ekki á neitt og skildi ekki frönsku nema ég læsi hana af blaði og gisti fyrst fyrir tilviljun á Hôtel de l‘Espérance, eða Hóteli vonarinnar sem er við Rue Vavin uppi á Montparnasse sem ég orti síðan ljóðaflokk um löngu síðar. Ég var að koma til útlanda í fyrsta skipti og hafði heyrt að frönsku kaffihúsin væru mjög mikilvæg og hlakkaði til að fara á þau. Á horninu á Vavin götu og Boulevard og Raspail voru þrír staðir á jarðhæð og ég fór inn á einn. Mér þótti frekar dimmt á þessum kaffihúsum en labbaði samt inn og að barnum þar sem ég pantaði mér bjór sem mér þótti alveg skelfilega dýr. Síðan var svið fyrir endanum og dularfull kona við kassann og fleiri konur sem ég skil ekki hvað þær segja en heyrist vera að spyrja um „âge“ sem þýðir aldur, en ég leit út fyrir að vera fjórtán ára en var nýorðinn nítján, svo ég tók upp passann minn og sýndi hann. Þá fóru þær að tala um, heyrðist mér, parents eða foreldra og vildu greinilega ekki sitja uppi með barn þarna. Þá kom ég með greinargerð fyrir því að faðir minn væri pasteur eða prestur og þá vissi ég ekki hvert þær ætluðu fyrir hlátri. Þá var á sviðinu byrjaður gamaldags, franskur týpískur striptease sem er stórkostlegt show og allt annað en það sem nútíminn býður upp á, og þær görguðu af hlátri vegna þess að í kaþólsku landi er það alveg ótrúlegt að einhver sé prestssonur. Svo ég tali ekki um að hann hafi villst, lítandi út eins og fjórtán ára, inn á svona stað. Þannig hlógu þær áfram og buðu mér annan bjór, ókeypis, og skiluðu mér út á götu gargandi af hlátri. Mér fannst þetta orðið hálf erfitt og hélt í framhaldinu áfram upp götuna og hitti von bráðar á Sélèct sem er alvöru kaffihús, opið og stórt og bjórinn um það bil tíu sinnum ódýrari. En árum saman þegar ég gekk eftir Rue Vavin og labbaði nálægt þessu horni, sem ég var farinn að forðast, þá var æpt á eftir mér, „Prestssonur“.

(14-5)