Sigla himinfley

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Um bókina:

Sigla himinfley er skáldsaga sem gerist í Vestmannaeyjum. Viðhorf gamalla og nýrra tíma takast á. Undiralda sögunnar skolar á land gömlum, óútkljáðum málum sem ekki verður lengur umflúið að leiða til lykta.

Samnefndir sjónvarpsþættir voru gerðir eftir sögunni í leikstjórn Þráins, sem einnig skrifaði handritið að þáttunum.

Úr Sigla himinfley:

Það var Malín sem réð ferðinni. Þau komu að götuhorni og hún hugsaði sig um andartak, svipaðist um og gekk síðan inn götuna.
Svei mér ef ég held ekki að þú ratir, sagði Sá gamli. Nú er bara að sjá hvort þú þekkir húsið.
Þau gengu áfram.
Finnst þér þetta ekki skrýtið? sagði hann.
Hvað þá?
Að ég skuli vera afi þinn.
Malín hló. Nei. Finnst þér það skrýtið?
Það er ekki laust við það. Þætti þér ekki einkennilegt ef það heimsækti þig alltíeinu fullorðin manneskja og kallaði þig ömmu?
Ég hugsa að það kæmi mér á óvart, enda þarf fólk nú yfirleitt að eignast börn áður en það getur farið að búast við barnabörnum.
Á mínum aldri býst maður nú frekar við barnabarnabörnum, sagði Sá gamli og leit á Malínu.
Mér finnst ég vera nýbúin að ala upp foreldra mína og búa þau undir að ég fari að heiman, svo að á næstunni ætla ég ekki að eignast börn eða koma mér upp fjölskyldu.
En hvað með vin þinn - þennan syfjaða?
Hann er bara vinur minn, ungur og myndarlegur maður á uppleið. Við kynntumst í skólanum.
Er hann líka viðskiptafræðingur?
Nei hann er lögfræðingur.
Afhverju lærðir þú viðskiptafræði?
Er þér illa við viðskiptafræðinga?
Ekki ef ég er afi þeirra.
Það er aldrei að vita nema það geti komið sér vel fyrir þig einhvern tímann að þekkja einn úr stéttinni, sagði Malín og tók fastar um handlegg afa síns og brosti við honum. Hann brosti ekki á móti.
Kannski kemur að því fyrren þig órar fyrir. Á ég að segja þér það, að þegar ég fór fyrst á sjóinn þá velti ég því stundum fyrir mér hvort ég ætti eftir að drukkna. En svo komst ég að því að sjórinn vildi mig ekki; tvisvar sinnum hefur hann spýtt mér útúr sér. En núna eftir því sem ég er lengur á þurru landi finnst mér oftar að ég sé að því kominn að drukkna. Ekki í söltum sjó eins og almennilegur maður, ónei heldur í einhverju pappírshafi.
Ég vissi að ég mundi rata, sagði Malín og staðnæmdist við garðhliðið hjá Ægisdyrum. Hélstu að ég væri alveg búin að missa minnið?
Skál fyrir því, sagði Sá gamli og hafði tekið upp konjaksflösku úr buxnastrengnum og ætlaði að súpa á en sá sig um hönd og rétti Malín flöskuna:
Damerne först, segir Lisbet.
Malín tók við flöskunni fegins hendi og saup á henni. Sá gamli tók við flöskunni aftur og fékk sér góðan slurk áður en hann stakk henni aftur í beltið.
Malín spurði:
Afhverju gengurðu með flöskuna í beltinu? Er Lisbet kannski lítið hrifin af því að þú fáir þér í staupinu?
Hvað ætli hún sé að skipta sér af því, sagði Sá gamli og gekk upp tröppurnar. Vertu velkomin í Ægisdyr.

(s. 55-57)