Síðustu dagar móður minnar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Þegar Mamma greinist með ólæknandi sjúkdóm og tarotspilin boða ekki bata heldur ævintýr er lífi hennar og Dáta, 37 ára sonar hennar, snúið á hvolf. Saman fara þau til Amsterdam í leit að líkn og reynist ferðalagið allt þetta í senn: gráglettið og tregafullt, innilegt og fyndið.

Úr Síðustu dögum móður minnar:

Mamma var í eigin heimi svo þegar ég sneri höfðinu aftur inn fannst mér ég þurfa að brydda upp á einhvers konar samræðum við bílstjórann og spurði út í bílinn.

,,Ambassador, herra. Indverskur bíll. 1800 ISZ.

,,Já? Ég vissi ekki að þeir fengjust hér.

,,Ég flutti hann. Frá Nainital, herra. Það er þorpið mitt á Indlandi.

,,Og þú keyrðir alla þessa leið?

,,Einmitt, herra. Ég keyrði.

,,Það hefur nú varla verið eins og hver önnur bílferð?

,,Nei herra. Hann virtist staðráðinn í að láta ekki narra sig út í samræður en bætti þó við, ögn hikandi: ,,Ég skipti um vél í Carta.

Mér leist vel á þennan fámála bílstjóra. Maður sem keyrir 10.000 kílómetra yfir tvær heimsálfur og finnst frásagnarverðast að hafa stoppað á leiðinni til að skipta um vél í Carta gat varla verið annað en áreiðanlegur bílstjóri. Umferðin varð minni eftir því sem við fjarlægðumst borgina. Bílstjórinn benti á skilti með hollenskri staðaráletrun, beygði inn frárein út af hraðbrautinni og þaðan á einbreiðan veg sem lá gegnum dreifbýlið. Húsin voru á stangli eins og bóndabæir en þyrptust loks í hnapp kringum litla kirkju. Við hlið hennar var veitingastaður og stórt hús með hollenska fánanum. Tveir karlar sátu á veröndinni framan við krána og störðu ofan í bjórkönnurnar á meðan ung kona las þeim að því er virtist pistilinn, fórnaði höndum og gekk í burtu. Vorið var að koma inn að Láglandi. Íkornar bruddu fræ í vegkantinum meðan sólin féll yfir hlykkjóttan slóðann og hvarf bakvið trén. Í útjaðri húsaþyrpingarinnar lá enn þrengri stígur að hliði sem á stóð Libertas og þaðan trjágöng gegnum landareignina. Bílstjórinn fór út og opnaði, settist svo aftur undir stýrið og ropaði, eins og hann hafði gert að jafnaði á kortersfresti síðan við lögðum af stað frá velinum. Hann átti seinna eftir að útskýra fyrir mér að fólk sem borðar kryddaðan mat á hverjum degi er með líflegra iðrakerfi en salatfólk og þvi dugi ekki að halda aftur af ropanum.

Það leið úr mér þar sem við keyrðum gegnum trjáþykknið. Kyrrðin var algjör, veðrið stillt og hávaðinn í bílnum það eina sem áreitti þögnina. Ég skrúfaði aftur niður og fann tæran svala morgunregnsins streyma inn í bílinn. Skógarlaufið hreytti frá sér rakanum svo jarðvegurinn ilmaði af kolefnum, úldnum sprekum og gróðri sem veturinn hafði skilið eftir undir snjónum. Mér varð starsýnt á nokra horaða karlmenn með golfkylfur hinum megin við trjágöngin, fölhvíta og næstum glæra í samanburði við sloppana sem héngu utan á þeim. Annað veifið námu þeir staðar í trjálundunum og munduðu kylfurnar án sýnilegs árangurs. Það var eins og hlæjandi líkum hefði verið hleypt út í dagsljósið til að fagna vorinu á kódíni.

Ég hafði varað Mömmu við því, áður en við lögðum af stað, að hún kynni að þurfa að breyta hatursfullu viðhorfi sínu til eiturlyfja - henni yrði eflaust rétt hasspípa strax og við mættum. Mamma svaf enn í bol sem á stóð ,,Segðu NEI! við vímuefnadjöfulinn, flík sem Matti frændi okkar hafði gefið henni eftir að Kiddi litli, einkasonur hans, veðsetti ættaróðalið fyrir sýru. Allar götur síðan hafði Mamma verið fjandvinur annarra vímuefna en áfengis. Hún talaði oft um það hversu grátlegt væri að geta ekki stungið niður litlum kofa á sjálfum uppeldisstöðvunum. Sölumenn dauðans höfðu haft þetta af henni. Þetta voru mafíósar frá Eistlandi og Litháen sem réðust inn í landið til að spilla æskunni, forhertir bófar sem nauðguðu konum og véluðu undir sig landgæði Íslendinga. Mamma hafði aldrei fyrirgefið Eystrasaltsríkjunum almennilega fyrir að lýsa yfir sjálfstæði á viðkvæmum tíma í sögu Sovétríkjanna. Hún sagði að þetta væri Jóni Baldvini að kenna, stofukrata sem hefði hlaupið í fangið á íhaldinu um leið og færi gafst. Og nú streymdu þessir baltnesku glæpamenn til Reykjavíkur með dópið sitt, það var nú þakklætið sem þjóðinni var sýnt fyrir að styðja löndin í að svíkja gamla Sovét. Melludólgar og dópistar eins og þeir sem spilltu Kidda. Aldrei skyldi hún láta véla sig til að bryðja einhverjar e-pillur, eða hvað þetta nú hét, kemískar dauðablöndur sem rændu heilbrigt fólk bæði heilsunni og dómgreindinni. Slíkt endaði bara á einn veg: í eignanámi og tilfinningalegu svartnætti.

(31-3)