Síðasti elskhuginn

Síðasti elskhuginn
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2013
Flokkur: 

Um Síðasta elskhugann

Er rómantík ennþá til?

Hvernig ástarsambönd henta fólki best? Er hægt að finna upp ný sambandsform þar sem þrír eða fleiri einstaklingar koma saman, eða henta opin sambönd sem bjóða upp á bæði nýjungar og öryggi? Eða er afbrýðisemin ef til vill sterkara afl en girndin þegar upp er staðið.

Sagan hefst í Moskvu á mesta hitasumri í sögu borgarinnar. Þaðan færist leikurinn til Íslands þar sem einsemdin og rigningin bíða, þá til stórborga Norður-Ameríku, New York og Montreal, og loks aftur heim í íslenska sveit. Hvert sem er farið leitar fólk síðasta elskhugans, þess sem gerir alla aðra óþarfa. En hver er hann, og mun hann nokkurn tímann finnast?

Úr Síðasta elskhuganum

Næst þegar ég sá hana var það í bjarma loganna á Austurvelli. Hópurinn kringum bálið var stærri nú en hann hafði verið í byltingunni. Og samt var eins og enginn raunverulega vissi hvað hann væri að gera þarna. Fólk var óánægt, en hvert átti að beina óánægjunni? Að núverandi stjórnvöldum eða þeim gömlu, að útrásarvíkingunum eða pólitíkusunum sem höfðu hleypt þeim að, að vondum útlendingum eða jafnvel að þjóðinni sjálfri sem hafði kosið sömu menn aftur og aftur þar til allir sjóðir voru tæmdir? Þjóðin ráfaði um í reiðileysi. Aðeins einn maður hafði skýr markmið, og sá maður var ég.

Ég fikraði mig í hálfhring í kringum bálið, braut mér leið framhjá bumbunum og þvældist í gegnum þvöguna þar til ég var staddur við hlið Anitu. í þetta sinn sneri hún sér ekki við þegar ég nálgaðist.

„Ég hef aldrei áður séð mótmæli þar sem enginn er með kröfuspjöld,“ sagði hún þegar ég hafði komið mér fyrir við hlið hennar.

„Þetta eru íslensk mótmæli," sagði ég eins og til útskýringar.

„Og samt er eitthvað við þetta sem minnir á Weimar-lýðveldið,“ sagði hún.

Hún var yngri en ég en virtist samt á einhvern hátt eldri. Kannski var það vegna þess að hún var frá meginlandinu, sem hafði upplifað svo margt slæmt, á meðan við hér vorum eins og barn sem rétt var byrjað að kynnast óréttlæti heimsins og vissi ekki alveg hvernig það átti að bregðast við.

Eins og til að taka undir orð hennar var hakakrossfána brugðið á loft. Var það svona sem þeirri heimsku sem leiddi til hrunsins skyldi svarað? Með enn meiri heimsku? Var það kannski það sem alltaf gerðist?

Ekki endilega, því einhver úr mótmælendahópnum þreif til sín fánann og henti honum í eldinn. Anita hallaði sér upp að mér og við horfðum saman á nasismann á Íslandi fuðra upp. Framtíðin virtist bjartari á ný.

Þegar staðið hafði verið í kringum bálið nógu lengi tók fólk að tínast heim. Lokadansinn var stiginn, lögreglan slökkti logana, anarkistarnir kveiktu þá aftur, einhver var úðaður, einhver var handtekinn, bálið var slökkt.

Anita og ég gengum saman upp Bankastrætið. Á horni Skólastrætis lagði ég hönd mína í hennar. Hún virtist taka því ágætlega. Hér var enginn meginlandsstækja til að stía fólki í sundur, aðeins kaldur vindurinn sem þjappaði okkur saman.

Þingholtsstrætið leið hjá án stórviðburða en á horni Ingólfsstrætis fór aftur að draga til tíðinda. Bilið milli okkar minnkaði óðum. Við námum staðar og snerum gegnt hvort öðru. Varir okkar mættust, hikandi í fyrstu, en svö af auknu öryggi. Hvað nú?

„Eigum við að fara heim til mín?“ sagði ég. Of hratt, allt of hratt. Ég var búin að gleyma að við vorum á meginlandstíma.

„Ekki núna,“ sagði hún. „En ég held að það muni gerast síðar,“ bætti hún við, og haustgolan hafði aldrei virst jafn hlý.

(49-51)