Síðasti bíllinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988
Flokkur: 

Um síðasta bílinn:

...Unglingsstúlka í niðurníddu sjávarþorpi verður fyrir dularfullri reynslu og skynjar að vofveiflegir atburðir eru í nánd... Starfstúlka á geðspítala fer með sjúkling í verslunarferð sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar... Unglingspiltur í litlu þorpi og jafnframt mesta sögusmettan í sinni sveit verður fyrir óhugnanlegri reynslu sem hann hélt að ætti bara heima í videó... Einkennilegur frændi hverfur með dularfullum hætti af fjölskyldusjónarsviðinu og Bjarni litli þarf að læra táknmál fullorðna fólksins til að leysa gátuna.

Þetta er brot af þeim atburðum sem koma fyrir í smásagnasafninu Síðasti Bíllinn.

Úr Síðasta bílnum:

Þetta kvöld yrði eftirminnilegt. Já, þetta var kvöldið þegar Tommi malaði Geira í leiknum Gettu bílinn. Komst fljótlega nokkrum bílum framúr og Geiri átti ekki sjens.

Óvænt úrslit. Furðulegt.

Auðvitað var það Geiri sem hafði fundið upp leikinn, fyrir óralöngu, fyrir mánuðum: að leggjast á hnén í þykkan sófa á neðri hæðinni í þessu stóra húsi, hvíla höfuðið í lófum og olnbogana í gluggakistunni, rýna út og spá í stopula umferðina á aðalgötunni sem lá drjúgan spöl frá húsinu en í góðu útsýni frá glugganum: reyna að geta hvaða bíltegund brunaði fram hjá í það og það skiptið. Sá sem gat fleiri bíla vann. Auðvitað.

Þeim fannst leikurinn góð tilbreyting frá matchboxbílunum þegar þeir misstu ferskleikann og raunsæið við of mikla notkun. Geiri hafði fljótlega náð ofurtökum á leiknum. Virtist stundum gæddur skyggnigáfu um bílana sem þutu hjá í hálffjarska, hljóðlausur utan gluggans; dularfullir. Tommi hafði raunar aldrei verið alvörukeppinautur heldur hógvær námsfús þátttakandi.

(69)