Síðasta freistingin

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
2012

Skáldsagan O televtaios peirasmos eftir Nikos Kazantzakis í þýðingu Sigurðar.

Síðasta freistingin fjallar um Jesú, sögu hans og trúna, efasemdirnar, og baráttuna við holdið.

Úr bókinni:

Ungi maðurinn varð einn eftir. hann lét hallast uppað krossinum og þerrði svitann af enni sér. Náði naumast andanum, tók andköf. Eitt andartak snerist allt fyrir augunum á honum, en síðan stöðvaðist allt aftur. Hann heyrði móður sína kveikja upp, svo maturinn yrði snemma til og hún gæti hlaupið einsog aðrir til að horfa á krossfestinguna. Allir nágrannarnir voru farnir þangað. Bóndi hennar stundi enn og barðist við að hræra tunguna, en barkinn var ennþá með lífsmarki, og það komu bara kokhljóð. Útifyrir var gatan aftur auð.

En meðan ungi maðurinn hallaði sér luktum augum að krossinum og hugsaði ekki um neitt, heyrði ekkert nema eigin hjartslátt, þá skalf hann alltíeinu af kvöl. Hann fann enn einusinni ósýnilegan gamminn reka klærnar djúpt inní höfuðsvörðinn. „Hann er kominn aftur, hann er kominn aftur…“ tuldraði hann og fór að skjálfa. Hann fann klærnar bora djúpt, sprengja höfuðkúpuna, snerta við heilanum. Hann beit saman tönnum til að komast hjá að æpa uppyfir sig; kærði sig ekki um að móðir hans yrði nú aftur skelfd og færi að veina. Hann hélt höfðinu þétt milli lófanna, einsog hann óttaðist að það tæki á rás. „Hann er aftur kominn, hann er aftur kominn …“ tuldraði hann titrandi.

Í fyrsta, allra fyrsta sinn – hann var orðinn tólf ára gamall og sat með stynjandi, sveittum öldungum í samkunduhúsinu og hlustaði á þá útlista orð Guðs – þá hafði hann fundið lítilsháttar langvarandi fiðring í hvirflinum, mjög þýðan einsog atlot. Hann hafði lagt aftur augun. Hvílík sæla þegar þessir dúnléttu vængir gripu hann og hófu uppí sjöunda himin! Þetta hlaut að vera Paradís“ hugsaði hann, og djúpsett endalaust bros flæddi frá hálfluktum augunum og sælum hálfopnum munninum, bros sem laust hold hans heitri þrá uns allt andlit hans hvarf. Gömlu mennirnir sáu þetta dularfulla, tortímandi bros og héldu helst að Guð hefði hrifsað til sín piltinn með klóm sínum. Þeir báru fingurna að vörum sér og sátu þöglir.

(28-9)