Sex augnablik

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995
Flokkur: 

Úr Sex augnablikum:

Ég var tiltölulega ungur þegar ég byrjaði að raka mig, aðeins sex ára gamall. Læknirinn sagði að ég hefði verið heppinn að halda nefinu. Ég var líka sex ára þegar mamma kom að mér þar sem ég veltist um á stofugólfinu. Hún fylgdist með mér angistarfull þar sem ég öskraði af hlátri og kastaði upp í taumlausri gleði. Þótt sjúkrabíllinn hefði ekki verið nema nokkrar mínútur á leiðinni var mamma orðin verulega æst og áhyggjufull þegar hún opnaði fyrir bláklæddu mönnunum. Þeir áttu í mesta basli með að fá mömmu til að leggjast á sjúkrabörurnar. Þegar þeir höfðu vafið ullarteppinu utan um hana og voru í þann mund að herða öryggisólina gat hún stunið því upp að ég, þessi sem var hlæjandi í stofunni, væri sjúklingurinn. Mennirnir höfðu orð á því að þeir hefðu aldrei fyrr sótt jafn kátan og skemmtilegan sjúkling. „Drengurinn er blindfullur,“ sagði læknirinn þegar ég var búinn að ropa hressilega framan í hann og míga á sloppinn hans. Ég skildi ekki af hverju ég þurfti að afklæðast undir þessum kringumstæðum en mér gramdist það greinilega ekki. „FUU...UU...LLLL..UURRR?“ stamaði mamma og var bæði skjálfhent og skömmustuleg, „er ekki allt í lagi með þig? Ég hélt að hann væri að deyja.“ Af svip hennar var erfitt að ráða hvort hún væri vonsvikin yfir að hafa ekki haft rétt fyrir sér. Ég ætlaði að sækja mér saklaust epli í ísskápinn þegar ég rak augun í bjórdolluna og nokkrum mínútum síðar hafði þessi ískaldi svaladrykkur farið sigurför um allan skrokkinn með tilheyrandi áhrifum. Höfuðið átti í mesta basli með að tolla almennilega á hálsinum og bjórinn bræddi beinin í fótunum þannig að ég þurfti að skríða til að komast leiðar minnar. Þá var ég ekki lengur með tvö augu, heldur fjögur eða sex, allt eftir því hvort höfuðið valt fram á bringuna eða aftur á bak. Þegar ég átti leið fram hjá speglinum, og rétt náði að virða þennan yndislega og brosmilda dreng fyrir mér, áttaði ég mig á því að mamma hafði skrökvað að mér í sex ár. Ég var í rauninni þríburi. Ég reyndi að gera mig skiljanlegan og sagði bræðrum mínum að elta mig inn í stofu. Þegar við skriðum þangað í vaggandi halarófu hló ég að öllu sem fyrir augu bar. Meira að segja litla eldgosið í maganum á mér var drepfyndið. Skömmu síðar kom mamma til sögunnar og henni er síður en svo ljúft að rifja upp þetta eftirminnilega síðdegi fyrir tíu árum.

(s. 5-6)