Sérstakur dagur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Sérstökum degi:

Rúmið mitt

Koddi minn er fullur af ófæddum draumum sem bíða fæðingar. Það gerist þegar eyrað lokar hlustinni og sendir frá sér blístur sem efsti draumurinn nemur. Sá næstefsti hreyfist úr stað. Ef hlustin opnast snögglega útaf óvæntu næturhljóði, öskri kannski úti á götu, deyr draumurinn í fæðingu.

Mamma skríður stundum uppí til mín því herbergið mitt er öruggara en herbergi hennar. Þá liggjum við og horfum uppí loft. Stjörnurnar blikka mömmu. Ég tek um augu hennar og segi henni að vera þolinmóð, betra sé að hafa ekki of mikil afskipti af ókunnugum. Og mamma veit það, þess vegna skríður hún uppí til mín.

Utan á sænginni er púður sem kviknar í við minnstu snertingu óvinarins. Lakið mitt er dúkur. Það borgar sig. Því ef guð verður svangur ligg ég hérna tilbúinn einsog fiskur á fati. Bara svo guð viti það. Ég er ekkert að fela mig. Dýnan er til skiptis full af peningum og heyi.