Sérðu það sem ég sé

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Sérðu það sem ég sé:

Ég var ekki einu sinni byrjaður að hugleiða hvernig ég ætti að ráðast í seinni lið verkefnisins, útrýmingu bílhræjanna, en þó var ekki laust við að stundum setti að mér kvíða og jafnvel skelfingu þegar ég var að væflast innan um þennan hrylling í árangurslausri leit minni að örnefnum. En áður en af því yrði að ég léti til skarar skríða fór ég að taka eftir einu sem gerði mig brátt ákaflega hugsi. Ég veitti því sem sagt athygli í rabbi mínu við systkinin á bænum og eins á því sem þau voru að ræða sín á milli, að mest af þessu drasli og dóti sem ég átti að fjarlægja var fyrir löngu orðið að fullgildum örnefnunum. Það var talað um að fara “niður í Landróver” eða “upp í rútu” “suður í Vípon” eða “fram í Garant”. Besti veiðistaðurinn í ánni var sagður í bugðunni “fyrir vestan Ferguson” eða spurt hvaða bleiki foli þetta væri þarna “fyrir utan og ofan Stúdebaker”. Einnig kom í ljós þegar fólkið var að burðast við að fræða mig um fornu örnefnin öll, að það hafði ekkert betra til viðmiðunar annað en bílhræin og véladraslið og þegar ég var að skrifa lýsingar mínar var því ekki auðvelt að komast hjá að vísa til helstu bílanna til að fá fram nákvæma staðsetningu örnefnastaðanna. Ég rissaði þá líka fljótlega inn á kortin, að minnsta kosti sjálfum mér til glöggvunar, hvað sem síðar yrði. Og ekki nóg með það: Þegar Önundur bóndi var að rölta með mér um landareignina í dauðaleit að öllum þessum stórmerkilegu en vandfundnu eða glötuðu sögustöðum varð mér líka ljóst að þó hann hefði ekki margt fram að færa um sögu og örnefni fyrri alda var hann nokkurn veginn óþrjótandi sagnabrunnur um allt er laut að þessum nýju örnefnastöðum. Bílarnir áttu sér sumir hverjir nær hálfrar aldar sögu sem hræ, en þar á undan fjölbreytta örlaga- og ferðasögu.

(s. 142-143)