Saman í hring

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1986
Flokkur: 

Vaka Helgafell 1999. Myndir: Sigrún Eldjárn.

Saman í hring er önnur bókin í þríleik. Hinar tvær eru Sitji guðs englar (1983) og Sænginni yfir minni (1987).

Úr Saman í hring:

Nunnurnar sem voru komnar aftur í klaustrið sögðu að í sumum borgunum stæði ekki steinn yfir steini. Útinunnan kom til að heilsa ömmu og mömmu.
Þetta er alveg svo voðalegt, sagði hún. Allir húsirnir eru bara búnir að sprengjast. Líka allir fallegu kirkjurnar okkara.
Lóu-Lóu dauðlangaði til að spyrja hana hvort skakki turninn í Písa stæði enn, en hún þorði það ekki.
En nú er þessi voðalegi stríður búinn, sagði nunnan.
Það má heyra að þessar fordæður eru komnar aftur í klaustrið, sagði afi við Lóu-Lóu þegar hún kom upp með koppinn. Ég ætla að biðja þig, lambið mitt, að sjá um að hann Guðbergur litli hlusti ekki á ambögurnar sem vella út úr þeim. Hann verður ekki kjarnyrtur af því.
Hann lætur nú sitthvað út úr sér svo börnin heyra, sagði amma, þegar Lóa-Lóa sagði henni hvað afi hafði sagt. Og ekki allt fallegt.
Skrýtið, hugsaði Lóa-Lóa, af hverju eru sum orð ljót en önnur falleg? Orð eru bara orð.

(s. 99-100)

Henni var kalt og hún var alein. Þetta voru allt asnar. Ég skal aldrei segja neinum neitt, hugsaði hún. Allir segja að maður eigi að segja satt. Samt skrökva allir að Öbbu hinni og hún heldur bara að Lási komi aftur, þessi bjáni. Svo þegar maður sjálfur segir alveg satt verður mamma bara reið.
Og Heiða, sem allir eru svo hrifinir af. Eins og Lóa-Lóa hefði ekki hundrað sinnum heyrt hana skrökva. Einu sinni sagði hún Kristínu á 12 að mamma og pabbi væru niðri í bæ og þá var pabbi blindfullur heima með Láka netamanni.

(s. 133)