Sálmar á atómöld

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

Viðbætt útgáfa (65 sálmar í stað 49 í frumútgáfu). Birtust áður í Fagur er dalur (1966).

Úr Sálmar á atómöld: [brot]

43.

Tíminn er þerriblað,
sýgur í sig litlausa daga
og nætur svartar af þéttum skógi.

Ó þessar blekslettur
á lífi okkar,
við höldum að þær verði
eftirminnilegar
þegar fram líða stundir,
en þær hverfa eins og dögg af grasi.

Þegar við vorum ung
var alltaf heiður himinn
jafnvel þegar úrillir kennarar
skömmuðu okkur fyrir svartar klessur
í stílabókum.

En þú sagðir ekkert.

Himinninn er hættur að vera
gagnsæ heiðríkja
og bleksletturnar í stílabókunum
orðnar að svörtum
blettum á sál okkar.
Hart er í heimi
hórdómur mikill,
segir gamalt skáld.

En þú segir ekkert.

Hvílík náð
að tíminn skuli vera þerriblað.

.......

47.

Í þínu nafni
eru byggðar kirkjur
með fjallháum turnum.

Við erum kirkjur
án turna,
án ljóss.

En þú hefur komið
og kveikt ljós
í musterum þínum,

þú hefur sagt:
Verði ljós,

en þú hefur aldrei sagt:
Verði háir turnar.