Sagan öll

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1985
Flokkur: 

Úr Sögunni allri: 

VAKNA

  Úr brimöldu draumsins skolar mér upp að þessari hvítu strönd. Ligg andartak í flæðarmálinu með vitin full af seltu, hrekk upp við að mjúkur sandurinn fer allur á ið og ég er einn með rúmfötunum.
 Sé hvar Bylgja tínir á sig spjarirnar, málar á sig augabrýr og hraðar sér í vinnuna.
 Hata þessa vinnu sem rænir henni á hverjum morgni og skilar henni útþvældri á kvöldin. Þessi opinbera skrifstofa með ofnum keyrðum á fullu fyrir lokuðum gluggum og skítugu gólfteppi þar sem hún situr með tvær hendur tómar og á að metta hugga skjóta yfir skjólshúsi og sjá farborða.
 Setningaslitur þegar hún er komin heim tautar yfir pottum andvarpar meðan hún pissar jafnvel eftir að við erum komin upp í rúm.
 Hrekk við að mæta mér í speglinum. Ég hef skipt um greiðslu. Eins og annar maður sé að reyna að brjótast út á næturnar.
 Blöðin koma skríðandi inn um dyralúguna. Skothvellirnir þegar hurðin skellur í morgunsárið hvell eftir hvell.
 Miður morgunn þegar ég hleypi inn póstinum. Myrkrið eins og kolsvört tjöld fyrir glerinu í anddyrinu. Jörðin auð og tóm og andlaus. Einn af þessum ekki-dögum sem gera ekki boð á undan sér í almanakinu en fólki er nauðugur einn kostur að taka gilda. Rétt grillir út í næstu blokk þar sem tveir trúboðar reyna að komast inn. Komast hvergi inn. Alltaf sama munstrið: einn stór, annar lítill, burstaklipptir í popplínfrökkum með paradísarheimt undir hendinni og enginn heima til að taka á móti Fagnaðarerindinu.
 Öskukallarnir eins og fjölleikahús fara um götur og garða, kíkja á glugga og hafa uppi háð og spé. Klæddir eins og tötrughypjur og trúðar, einn í kjólfötum, þessi sem stjórnar sleðanum ekkert undir kúreka með hanska og filtersígarettu, hjólbeinóttur ekki í skapi fyrir fíflalætin í drengjunum.
 Ég fiska dagblaðið upp af gólfinu. Les forsíðuna á leiðinni upp stigann: Verkamaður í álverinu banar félaga sínum með hníf og særir annan áður en hann steypir sér í ofninn.
 Mér verður litið út um gluggann eins og til að öðlast samband við það sem ég var að lesa: fólk að paufast í hálfrökkri, þreytt rigning vafin í myrkrið. Himinninn blýþungur og grár. Drullugur klaki endurkastar rafmagnstýru. Hrunin jólatré velkjast á grasflötinni.
 Ég sit og bíð eftir fyrirmælum um að rísa á fætur.

(s. 36-37)