Sagan endalausa

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1984

Um þýðinguna

Die unendliche Geschichte eftir Michael Ende. Jórunn Sigurðardóttir þýddi söguna, Böðvar Guðmundsson þýddi bundið mál.

Úr Sögunni endalausu

Atrejú sneri sér í þá átt sem honum þótti röddin berast úr en þar var engan að sjá.

,,Hver ert þú? hrópaði hann.

Hans eigin rödd bergmálaði til baka: ,,Hver ert þú - ert þú - þú-þú?

Atrejú hugsaði sig um.

,,Hver er ég? muldraði hann. ,,Ég veit það ekki. Samt finnst mér eins og ég hafi einhvern tíman vitað það. Skiptir það einhverju máli? Röddin syngjandi svaraði honum:

Viljirðu spyrja spyrðu þá
en spyrja í ljóðum aðeins má,
þau orð sem heyra öðru til
ég ekki skil, ég ekki skil....

Víst hafði Atrejú lært ýmislegt þó ungur væri en hann var lítt æfður í ritsmíðum og ljóðagerð og óttaðist að umræður hans við röddina ættu eftir að ganga stirðlega ef hún fékk aðeins skilið það sem var rímað. Hann þurfti að brjóta heilann langa stund áður en honum tókst að berja saman fyrsta ríminu:

Ef leyfist að spyrja ljóst og bert,
mig langar að vita hver þú ert.

Og röddin svaraði um hæl:

Þín orðræða hér
er auðskilin mér.

Og svo hljómaði röddin aftur úr allt annarri átt:

Ég þakka þér, vinur, þinn vilji mér fagnar
og velkominn ber þig hér að,
ég er Úyulæla, rödd ómælisþagnar
frá afkimans launhelga stað.

Atrejú veitti því eftirtekt að röddin hljómaði í rauninni án afláts, stundum hærra og stundum lægra, jafnvel þótt hún segði ekki neitt eða þegar hann talaði til hennar sveif ómur hennar umhverfis hann.

Röddin hafði nú fjarlægst nokkuð og hann hraðaði sér í humátt á eftir henni og spurði:

Úyulæla, hlustar þú orð mín á?
Ég óska að sjá þig en það ekki má.

Röddin sveif rétt við eyra hans:

Ég atvik ei þekki
að einhver mig sér,
því sérðu mig ekki
en samt er ég hér.

,,Ertu þá ósýnileg? spurði hann en fékk ekkert svar, ,,æ, já, spurningin verður víst að vera rímuð...

Víst ertu hulin veraldarþjóð,
vantar þig líka hold og blóð?

Hann heyrði lágan óm sem minnti á hlátur og grát í senn. Svo byrjaði röddin að syngja:

Hvorki né og nei og já,
það lálgist hver um sig,
því ljós mig fellur ekki á
eins og sjálfan þig,
mitt hold og blóð það hljómur, mál
af hreinum tónum er
og röddin ein er öll mín sál,
mitt Allt og Sjálf mitt hér.

(100-101)