Sagan af Daníel I : Undir bláu augliti eilífðarinnar

Höfundur: 
Útgefandi: 
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Sagan af Daníel I :

Undir bláu augliti eilífðarinnar: Fjarlægar drunur losuðu um svefn drengsins. Hann reis upp við dogg. Lagði við hlustir. Voru þetta ekki flugvélardrunur? Hélt niðri í sér andanum. Jú, greinilega drunur frá flugvél, sem að öllum líkindum flaug fyrir fjarðarmynnið. Það var næsta daglegur viðburður, ekki lengur spennandi – og þó. Hann nuggaði stírur úr augunum. Leit út í húmaðan gluggann. Sá óljóst gegnum gisið rósamunstur gardínanna skuggamynd tveggja blómapotta er stóðu í gluggakistunni. Blómapottarnir dunkar undan fiskibollum, sem fengust í kaupfélaginu. Utan um þá vafinn gamall jólapappír til skrauts. Þeir bræðurnir höfðu hjálpað mömmu við það eitt kvöld í vetur leið þegar glugginn var myrkur og vindurinn feykti snjódusti í kvikum sveipum utan hans sem í dansi. Drengurinn, Daníel, settist frammá, tyllti hægra fæti á ískalt gólfið, hryllti sig, fann kuldann læsast upp gegnum ilina. Vandist tilfinningunni. Lét þann vinstri snerta gólfborðin, tiplaði hálfboginn út að glugganum, sem var skipt með grönnum póstum í fjórar, misstórar rúður. Vissi að stríð geisaði úti í stóru löndunum. Flugvélar flugu með sprengjur yfir höfin, létu þær falla á borgir og skip, þar sem fullt var af fólki. Þær voru þýskar og drengurinn heyrði fólkið bannsyngja foringja þeirra sem hét Hitler.

(s. 5)