Saga af manni sem fékk flugu í höfuðið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1979
Flokkur: 

Úr Sögu af manni sem fékk flugu í höfuðið:

En áður en skáldið bauð til veislu hafði hann boðað blaðamenn á sinn fund, til vonar og vara. Hann sýndi blaðamönnum búrið og sagði, eftir hæfilega umhugsun:

Þessa fágætu flugu fékk ég í höfuðið á sjáldgjæfum sólskinsdegi núna í vor. Ég áttaði mig strax. Og óðar lét ég hana í þetta fagurgerða búr.

Frumleg umgerð fyrir óvenjulega flugu, sögðu blaðamennirnir.

Ég held hún skýri sig sjálf, sagði skáldið. Flugan er sem lokaður heimur, en um leið opin og sjálfstæð heild.

Hún skýrir sig sjálf, samþykktu blaðamennirnir. Og það er orðið heldur sjaldgæft í heimi listanna.

Myndir voru teknar af búrinu. Þær voru birtar í blöðunum á morgni veisludagsins. Og blaðalesendum fannst bæði flugan og búrið vera samfléttuð fegurð og dulúð. Það var hægt að leggja svo margfalda merkingu í verkið.

Búrið er opið og lokað um leið, sögðu þeir og létu eins og þeir hefðu ekki lesið þessi orð undir myndunum.

Loksins urðu sammála lesendur og blöðin.

Eftir útkomu blaðanna um morguninn var skáldið ósmeykt að láta fluguna fljúga fyrir augu skálda, sem skrifuðu aldrei neitt, hvað þá hinna. Hann þráði að frægð hennar bærist um þvert og endilangt landið og vekti undrun, óánægju, öfund og deilur. Með því hélt skáldið að takmarki afreksverka yrði náð, að menn hættu að vinna en hnakkrifust í staðinn; og færu jafnvel í handalögmál út af flugu.

Ég verð eflaust ódauðlegur á einni nóttu, hugsaði skáldið.

(s. 25-26)