Safnarinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991

John Fowles: The Collector.

Af bókarkápu:

Safnarinn er saga um mannrán, saga um vonlausa ást. Clegg er ungur skrifstofumaður og fiðrildasafnari sem hefur lifað fremur gleðisnauðu lífi. Hann verður gagntekinn af ungum og afar efnilegum myndlistarnema, Míröndu. Clegg ákveður að leggja allt í sölurnar til að vinna ástir hennar, nemur hana á brott og heldur henni fanginni til að geta sannfært hana um verðleika sína. Um þau lokast heimur fullur af geðveiki, óhugnaði og ósættanlegum andstæðum.

Úr Safnaranum:

Þegar hún var í leyfi frá heimavistarskólanum sá ég hana stundum næstum daglega afþví húsið þeirra var beint á móti útbyggingu ráðhússins. Hún og yngri systir hennar voru á látlausum þönum inn og út, oft með ungum mönnum, sem var mér náttúrulega ekki að skapi. Þegar ég átti stund aflögu frá spjaldskránum og klöddunum stóð ég einlægt við gluggann og horfði útyfir götuna yfir möttu rúðuna og þá kom ég stundum auga á hana. Á kvöldin skrifaði ég það hjá mér í minniskompuna, fyrstístað með bókstafnum X, en síðan með M þegar ég komst á snoðir um nafn hennar. Ég sá hana líka nokkrum sinnum útivið. Ég stóð einusinni beint fyrir aftan hana í biðröð í almenningsbókasafnnu niðrá Crossfieldstræti. Hún leit ekki til mín eitt einasta skipti, en ég virti fyrir mér hnakkann á henni og hárið sem var í löngu tagli. Það var ákaflega litverpt, með silkigljáa, einsog ljósbrúnleitt lirfuhíði. Allt í löngu tagli sem náði næstum niðrað mitti, ýmist að framan eða aftan. Stundum var hún með það uppsett. Aðeins einusinni, áðuren hún varð gestur hérna, var ég svo heppinn að sjá hana með það slegið, og ég tók andköf, svo fallegt var það, einsog á hafgúu.

Öðrusinni þegar ég áttti laugardagsfrí og fór í Náttúrugripasafnið, kom ég til baka með sömu lest og hún. Hún sat þremur bekkjum framar og á hlið við mig og las í bók, svo ég gat virt hana fyrir mér í þrjátíuogfimm mínútur. Þegar ég sá hana var mér ævinlega innanbrjósts einsog ég væri að veiða sjaldgæft fiðrildi, læddist að því afarglætilega með hjartað uppí hálsi einsog sagt er. Þannig hugsaði ég ævinlega um hana, ég á við orð einsog viðsjál og torgæt og óendanlega fíngerð - ekki einsog hinar, jafnvel þær laglegu, Fremur ætluð augum sérfræðings.

Árið sem hún var enn í skólanum vissi ég ekki hver hún var, einungis að faðir hennar var Grey læknir, og eitthvert slúður heyrði ég um það á fundi í skordýradeildinni að móðir hennar væri drykkfelld. Ég heyrði eittsinn til móður hennar í verslun, hún hafði skringilegan málhreim og auðséð að hún var kvengerð sem fékk sér í staupinu, alltof mikill andlitsfarði og allt það.

Nú, síðan kom þessi frétt í bæjarblaðinu um námsstyrkinn sem hún hefði hlotið og hversu dugleg hún væri, og nafnið hennar eins fallegt og hún var sjálf, Míranda. Og þannig fékk ég pata af því að hún væri komin til London í listnám. Sannarlega skipti hún máli þessi fréttaklausa í blaðinu. Það var einsog við yrðum nákomnari, endaþótt við þekktumst auðvitað ekki enn í venjulegum skilningi.