Sá yðar sem syndlaus er

Útgefandi: 
Staður: 
Akranes
Ár: 
2006
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Maðurinn, eða það sem eftir var af honum, sat í dökkbrúnum, djúpum leðurhægindastól gegnt sjónvarpinu - sem enn var í gangi - og hafði setið þar lengi. Mjög lengi.

Miðaldra karlmenn sem skilja eftir áratuga hjónaband eru líklegri en aðrir til að missa tökin á tilverunni og lenda í gröfinni langt fyrir aldur fram - ef þeim lánast ekki að finna sér nýja konu fljótlega. Ólafi Áka Bárðarsyni tókst ekki að finna sér nýja konu eftir skilnaðinn en hann fann Meistara Magnús, Sannleikann og Guð. Stefán, Katrín, Guðni og Árni, sem lesendur þekkja úr fyrri glæpasögum Ævars Arnar, þurfa hinsvegar að finna morðingja Ólafs.

Úr Sá yðar sem syndlaus er:

Stefán hér. Er læknirinn mættur? Undir venjulegum kringumstæðum hefði hann spurt hvort Geiri væri mættur. En í ljósi þess að langt var liðið á föstudag og Geir Jónsson, sá réttarmeinarfræðingur sem oftast var kallaður á vettvang í svona tilfellum, átti það til að vera kominn hálfa leið oní viskíflösku á þessum tíma, kaus hann að nefna engin nöfn. Það var ekki regla að Geir væri dottin íða á þessum tíma, en heldur ekki undantekning og þarsem Stefán kunni vel við karlinn forðaðist hann að draga athyglina að þessu tiltekna vandamáli ef hjá því varð komist.
Nei, Geiri er ekki mættur gjammaði Hundurinn, sem var frægur fyrir flest annað en hæfni í mannlegum samskiptum einsog viðurnefnið bar með sér. Er víst á leiðinni. Þótt ég viti ekki afhverju hann ætti að mæta.
Auðvitað þarf hann að mæta, hvað ertu að bulla?
Þú sérð það sjálfur þegar þú kemur. Hvar ertu?
Í lyftunni. Á leiðinni upp. Er þetta eitthvað sem ég verð endilega að sjá? spurði Stefán sem skoðaði helst aldrei morðvettvang, fyrren búið var að fjarlægja líkið ef hann mögulega gat skotið sér undan því. Einhver útlenst löggufræði og ótal glæpasögur staðhæfðu reyndar að allar alvörulöggur yrðu nauðsynlega að skoða vettvanginn nákvæmlega einsog hann var þegar að var komið til að ná tengslum við glæpinn eða eitthvað álíka gáfulegt, en hann hafði aldrei haft mikla trú á þeim vísindum. Ljósmyndir og skýrslur gerðu alveg sama gagn að hans mati, og reynslan hafði ekki gefið honum neina ástæðu til að efast um það mat. Hundinum var vel kunnugt um þessa tregðu Stefáns til samvista við hina dauðu en hikaði samt hvergi í svari sínu.
Já, sagði hann, í þetta skiptið held ég að þú verðir að líta inn. Sorrí Hann lagði á. Stefán bölvaði, steig útúr lyftunni og bjó sig undir hið versta. En þótt dyrnar skáhallt á móti honum væru galopnar fann hann aðeins sömu, daufu sorplyktina og mætti honum niðrí anddyrinu. Sætsúr, væmin og velgjuvekjandi lyktin sem hann hafði búist við var víðsfjarri. Skrítið, hugsaði hann og nam staðar í gættinni. Hann lokaði augunum og dró andann djúpt gegnum munninn nokkrum sinnum áður en hann gekk innfyrir þröskuldinn, ákveðnum skrefum. Og snarstansaði í stofugættinni. Það var ekki að undra að nályktin lá ekki í loftinu.

(50-51)