Romsubókin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2005
Flokkur: 

Um Romsubókina:

Í Romsubókinni tekur Aðalsteinn Ásberg upp þráðinn þar sem þulum fyrri tíma sleppir og spinnur langar romsur. Með myndromsum eftir Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur.

Úr Romsubókinni:

Mýrarkattarromsa (brot):

Úti í mýri held ég til á haustin
þótt heldur sé nú lágvær í mér raustin
en kannski get ég mjálmað miklu hærra
og mófuglana veitt. Mér sýnist færra
af þeim en áður. Það er engin furða
eins þröngt og plássið er á milli skurða.
Hér burðast allir við að byggja hús.
Æ, bara að ég sæi mús og mús
þá væri lífið langtum betra,mjá!
Nú langar mig að segja aðeins frá.

Í upphafi ég undraköttur var
svo utan á mér bar ég gáfurnar.
Ég stærri var en stígvélaði kisi
og státaði af ýmsu kattarglysi
en fljótlega ég festist inni í bók
og faldi mig svo enginn eftir tók.
Í handritum frá löngu liðnum öldum
ligg ég kyrr á hljóðum vetrarkvöldum
en bregð mér stundum út á borgarrölt
þá brakar í mér, heyrist urg og skrölt.
Í svartamyrkri sést ég berum augum
og sumir verða hræddir, fara á taugum
æpa á hjálp með ógurlegum skrækjum
sem ekki hæfa mínum uppátækjum
því ég er hvorki gráðugur né grimmur
en gæti tekið við þig nokkrar rimmur
um hvernig lífið allt er öfugsnúið
já, einfaldlega svo í pottinn búið
að gamall högni gætilega fer
og gengur tæpast lengur fram af sér.