Rof

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 

Um Rof:

Árið 1955 flytja tvenn ung hjón íafskekktan eyðifjörð. Dvölin fær snöggan endi þegar önnur kvennanna deyr með dularfullum hætti. Hálfri öld síðar finnst gömul ljósmynd sem bendir til þess að hjónin hafi ekki verið ein í firðinum. Ari Þór lögreglumaður á Siglufirði reynir að fá botn í þetta dularfulla mál með liðsinni fréttakonunnar Ísrúnar. Og í Reykjavík vindur óvænt sakamál upp á sig þegar ung fjölskylda er ofsótt af ókunnum manni.

Úr bókinni:

Ari Þór Arason, lögreglumaður á Siglufirði, kunni engar haldgóðar skýringar á því hvers vegna hann hafði núna, þegar litla bæjarfélagið var hreinlega í hers höndum, ákveðið að gefa sér tíma tila ð skoða gamalt sakamál fyrir mann sem hann þekkti lítið sem ekki neitt.

Maðurinn, Héðinn að nafni, hafði hringt í Ara skömmu fyrir jól þegar varðstjórinn á staðnum hafði verið í leyfi fyrir sunnan. Spurt hvort hann hefði tíma til að skoða gamalt mál – dauðsfall ungrar konu. Ari hafði lofað að hafa samband við tækifæri en ekki látið verða af því fyrr en nú í kvöld. Hann hafði boðið Héðni að líta við á stöðinni – eftir að Héðinn hafði fullyrt að hann hefði haldið sig innandyra undanfarna daga og engin hætta væri á því að hann hefði smitast af sóttinni. Reyndar hafði hann lýst yfir nokkrum áhyggjum af því að hitta Ara við þessar aðstæður, en að lokum gripið tækifærið.

Sóttin hafði komið í bæinn í kjölfar heimsóknar ferðamanns þangað tveimur dögum áður, ævintýramanns frá Frakklandi. Sá hafði verið á ferð í Afríku og farið í beinu framhaldi til Grænlands. Þar hafði hann tekið flugvél á leigu og skroppið til Íslands – fékk leyfi til þess að lenda á litla flugvellinum á Siglufirði til þess að skoða Síldarminjasafnið. hann ætlaði sér að gista í bænum eina nótt en veiktist hastarlega áður en nýr dagur rann. Í fyrstu bentu einkennin til þess að um væri að ræða slæma flensu með háum hita, en síðan fór staðan að versna verulega og maðurinn lést þegar næsta dag. óttast var að hér væri eitthvað annað og verra á ferðinni en vetrarflensa og haft var samband við sóttvarnarlækni fyrir sunnan. Mat hans var að líklega hefði verið um að ræða tilvik af blæðandi veiruhitasótt sem ferðamaðurinn hefði smitast af í Afríku, þótt einkennin hefðu ekki komið fram strax. Sjúkdómurinn var talinn afar skæður og hugsanlegt að einhverjir hefðu smitast af ferðamanninum eftir að hann fékk hita.

Lögreglunni á Siglufirði var greint frá því að sóttvarnarlæknir hefðu fundað með almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og að almannavarnarnefnd Norðurlands hefði verið gert viðvart, auk þess sem tilkynnt hafði verið um smitið til eftirlitsaðila erlendis. Sýni sem tekið var úr hinum látna staðfesti að á ferðinni var stórhættuleg veiruhitasótt, sem væri í raun engin leið að meðhöndla með árangursríkum hætti.

(15-6)