Rimlar hugans: Ástarsaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2007
Flokkur: 


Einnig gefin út í kilju 2008.

Af bókarkápu:

Í ársbyrjun 2002 fékk Einar Már Guðmundsson bréf frá gæsluvarðhaldsfanga á Litla-Hrauni sem sagði honum sögu sína, um leið og hann færði Einari þakki fyrir verk hans sem hefðu skipt sig miklu máli í fangelsinu. Þremur árum síðar liggja leiðir þeirra Einars Más saman; fanginn þá að koma úr fangelsi en Einar Már úr áfengismeðferð. Þegar þeir bera saman bæukr sínar stígur svo fram, í krafti sagnalistarinnar, hin magnaða og töfrum slungna ástarsaga fangans Einars Þórs og Evu, kærustu hans.


Úr Rimlum hugans:

Ástin mín, það er nýr dagur, nýtt ljós. Sólin fyllir klefann birtu. Ást þín streymir til mín. Því brýt ég hlekki hugans og fleygi mér í faðm þinn, hoppa yfir hliðið, þýt um þröngan farveg, skarð á milli fjalla, hitti þig við læk einn eða litla kaffistofu. Þú brosir einsog engill. Ég greiði lokka þína. Við hlæjum uppi á heiði, en þá fer ský um himin og varpar skugga á veggi. Ég stend í klefa mínum og stari út´i tómið, en ást mín streymir til þín sem lækur útí lífið. Himinninn er svo glaður, falleg fjöll í fjarska. Guð þú varpar ljósi á veröld mína og von, heimur minn og hugur, æðrulaus án ótta... Stjörnur hlæja á himni, horfin næturský. Góða nótt, þú kemur í vökunni til mín.

...

Heyrðu, Eva.

Hvað myndir þú fá þér á Litlu kaffistofunni?

Væri ekki gaman að búa til bíómynd um svona real gaur sem kynnist dömu úr artí-partí geiminu, 101 smartinu. Þegar hann býður henni út að borða þá býður hann henni á Múlakaffi. Þegar hann býður henni á kaffihús þá býður hann henni á Litlu kaffistofuna.

Smám saman fattar hún að það snýst ekki allt um wanna-be yfirborðsmennskuna, kannski ekki ósvipað og gaurinn í finnsku myndinni sem smám saman fattar fúttið í Hjálpræðishernum.

Æ, fyrirgefðu ástin mín, ég er bara að reyna að dreifa söknuðinum.

Þá býr maður til myndir, ljóð og heyrir tónlist, sjávarniðinn sem læðist hingað inn með birtunni, þar til allt í einu hringlar í lyklum og þér er varpað inn í veruleikann, lampaheiðríkjuna, spurningar og svör.

(77-8)