Rímblöð. Ferhend smákvæði

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1971
Flokkur: 

Úr Rímblöðum:

Hjá Víðimýrarseli

Þeir fóru hér um í flokki
til framtíðar sinnar og drauma
alfrjálsir, ungir sveinar
um árdag, við hófaglaum.

Einn varð að horfa héðan
á hópinn sem veginn þeysti
- bundinn í báða skóna
og bönd þau gat enginn leyst!

Hér, oní þessar þúfur
var þögult grátið þann morgun.
Langt er nú liðið síðan
og læknuð hin beiska sorg.

(s. 81-82)

Ísland

Minn staður er hér, þar sem Evrópa endar
og auðnir hnattarins taka við.
Eldgröf í sæ, með ísbláan múrinn
á aðra hlið.

Örlagastaður sem stundirnar markar.
Hér stendur rótum í gleði og sorg
mitt sveitamannslíf, mín hálfgildings hugsun
í hálfgildings borg

og er viðspyrna, farg; það fellur hér saman -
flækjuleg reynsla. Hvort nýtist hún mér
til fullnaðarsöngva? Útmörk. Evrópa
endar hér.

(s. 88-89)