Rigning með köflum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 

Úr Rigningu með köflum:

Benni leit út eins og gamalmenni. Aldrei hafði Jakob séð mann jafn ókátan að leggja upp í ferðalag. Hann ætlaði að fara snemma næsta morgun. Um miðaftanbil stytti upp og lyngdi. Skýjaflekarnir tóku að roðna, sem benti til þess að einhverstaðar væri orðið heiðskírt. Jakob gekk út og andaði að sér lofti sem var tært eins og fjallalækur. Heimilisfólkið tíndist allt út á bæjarhelluna. Meirasegja Guðbjartur reis úr bælinu og kom fram. Þarna stóð fólkið og horfði upp til Neshyrnunnar sem var að hreinsa sig og út á sjóinn sem hafði fellt alla hvíta falda og lá spegilflatur með daufrauðri slikju svo langt sem augað eygði. Grasið á túninu byrjaði strax að rétta úr kútnum og beið óþreyjufullt eftir vermandi sólargeislunum. Þá skyndilega rifu urrandi, grimmdarlegir skellir kyrrðina í tætlur, en þeir létu samt í eyrum eins og sætasta músík við ljúfasta ástarljóð og litli hópurinn á hlaðinu tók allur á sprett niður að hlöðu, meirasegja Signý gamla hljóp við fót eins og hún hefði skyndilega kastað ellibelgnum. Það fór ekki á milli mála: Á bílpallinum stóð bátsvélin öskrandi og nötrandi eins og óður griðungur.
 - Hvern fjandann varstu að fikta? var það fyrsta sem Benna datt í hug að segja í geðshræðingunni.
 - Hún er ekki úrbrædd, kallaði Nonni sem stóð uppi á bílpallinum krímugur í framan, það var bensíndælan, Benni minn, ég fixaði hana.
 Benni þaut í einu stökki upp á bílpallinn, reif í Nonna, hristi hann til og öskraði: Helvítis kvikindið þitt, þú ert snillingur!
 Þeir hoppuðu eins og tveir ruglaðir hrafnar í kringum vélina þar til hún drap á sér.
 - Þetta er allt í lagi, sagði Nonni við Benna sem hvítnaði í framan, hún er bara bensínlaus.

(s. 90-91)