Rigning í nóvember

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Endurútgefin í kilju 2007 og 2012.
Um bókina:
Ung kona sem talar ellefu tungumál stígur upp úr volgri hjónasæng. Hún tekur að sér heyrnarlaust barn og heldur í ferðalag með happdrættisvinning í hanskahólfinu. Á leið hennar í nóvemberþoku verða þrír karlmenn og nokkur dýr.
Bókin hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og var tilnefnd til Menningarverðlauna DV í bókmenntum.


Úr Rigningu í nóvember:
Hann segist vera búinn að frétta það. Hringir um miðja nótt og segist vera búinn að frétta það og vill koma, til að veita mér persónulegan stuðning.
   - Frétta hvað?
   - Með skilnaðinn.
   - Þú hefur kannski frétt það á undan mér, eins og allir aðrir.
   Hann hringir þrisvar sinnum úr farsímanum, í síðasta skiptið segist hann geta ýtt á dyrabjölluna mína með olnboganum, hvort ég ætli virkilega að loka á hann. Ég segist ekki loka á hann, hann hafi sjálfur sagt fyrir viku að þetta yrði í síðasta skiptið. Á hinn bóginn muni ég ekki opna. Ef hann vilji hitta mig skuli það vera ódrukkinn í björtu. Til dæmis á skautum á Tjörninni, segi ég vafningalaust án þess að vita hvernig ég fæ þá hugmynd. Sjálfsagt vegna skautanna sem mamma minntist á við mig í símanum. Það eru síðustu forvöð að fara á skauta, því það er spáð asahláku strax eftir helgi. Þá breytist sjálfsagt mjög margt. Ég er reyndar löngu búin að fá mér nýja sem ég geymi í vinnunni og fer stundum niður á Tjörn að renna mér þegar mig vantar orð í þýðingunni.
   Og síðan, eins og til nánari áréttingar, segi ég:
   - Ég verð þar á morgun eftir klukkan sautján, núll, núll.
   - Ég myndi gera allt fyrir þig, segir hann, jafnvel fara á sakuta ódrukkinn, þú veist að ég elska þig.
   - Þá getur þú sagt mér það á morgun, ódrukkinn, á móts við hólmann.
Þegar móðir mín afhenti mér skautana lét hún fylgja samanbrotnar buxur sem hún hafði saumað blómabekk neðan á, þegar ég var fjórtán.
Ég er ekki búin að segja henni frá skilnaðinum. Það er hins vegar rétt hjá henni að ég er tæplega vaxin til að vera móðir, ég kemst ekki blómabuxur sem ég átti þegar ég var fjórtán ára.
   - Ég fór á skauta kvöldið áður en ég átti þig, renndi mér þrjá eða fjóra hringi með vinkonu minni, arm í arm, ég var í rauðri ullarkápu með uppsett hár. Sjálfsagt er hún að rugla því saman við ballferð sem þær fóru nokkrum mánuðum áður, en ég segi ekki neitt.
   - Þá fann ég skyndilega til svengdar, taldi það hugsanlega vera grjónagrautinn sem ég hafði borðað í kvöldmat. Eftir fjóra hringi var sultarkenndin orðin að sárum hungursting, svo ég ákvað að fara ein heim og fá mér skyr og mjólkurglas. Hefði ég ákveðið að fara þrjá hringi til viðbótar, hefðir þú komið í heiminn á frosinni Tjörninni í miðbænum.
Það er ekki langt frá þar sem ég bý. Þannig má hverfa burt frá líðandi stund til upprunalegri tíma. Það er þröngt um mig í gruggugu vatni og augum þrútin.
   - Ég þjáðist mikið þegar ég átti þig, ég var þrjátíu og sex stundir að eiga þig, fimm að eiga bróður þinn. Ég var í fjóra mánuði að jafna mig, bara á líkama, eftir að hafa átt þig. Ég viðurkenni að mér finnst ég að ýmsu leyti nánari bróður þínum, hann hringir líka oftar.

(48-9)