Reykjavíkurnætur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 

Um Reykjavíkurnætur:

Reykjavíkurnætur fjallar um fyrsta mál lögreglumannsins Erlendar. Erlendur er nýlega genginn til liðs við lögregluna og starfið á strætum Reykjavíkur er erilsamt: umferðarslys, þjófnaðir, heimilisofbeldi, drykkja, smygl … Óútskýrt mannslát lætur hann ekki í friði. Útigangsmaður sem hann hefur hitt á næturvöktum finnst drukknaður í gamalli mógröf á óbyggðu svæði og öllum virðist standa á sama. En örlög hans ásækja Erlend og leiða hann æ dýpra inn í framandi heima borgarinnar.

Úr Reykjavíkurnóttum:

Erlendur var á næturvöktum um helgina og hafði nógu að snúast. Komið var fram í miðjan júlí, sumarið var í fullum skrúða, næturnar voru enn bjartar og sólríkar og fólk var á faraldsfæti í blíðunni. Skemmtistaðirnir voru fullur út úr dyrum og þegar þeim var lokað streymdi fólk út á göturnar i blíðviðrinu og gekk um miðbæinn. Margir tylltu sér niður í Hljómskálagarðinum eða á Austurvelli og héldu áfram söng og gleði. einhver hafði útvegað flösku og hún var látin ganga. Aðrir lentu í illdeilum og slógust í húsasundum. Kannski var það út af stúlku. Svo voru það alltaf slagsmálahundarnir, heimskir bjálfar sem fóru um bæinn misjafnlega drukknir og espuðu til áfloga eða töldu sig eiga óuppgerðar sakir. Þeir voru fluttir í fangaklefa ef náðist í þá. Stundum þurfti þrjá lögreglumenn til þess að yfirbuga fólin. Innbrotum fjölgaði þegar fólk fór út úr bænum og þjófar nýttu sér ferðagleðina til þess að fara um rænandi og ruplandi í mannlausum húsunum. Vökulir nágrannar tilkynntu um innbrot.

Erlendur fór í tvö slík útköll þessa helgi. Annað var í nýju hverfi í Fossvoginum aðfaranótt laugardags. Nágranni hafði tekið eftir fólki að sniglast á bak við einbýlishús neðst í Fosvogsdalnum. Erlendur sat undir stýri og lét bílinn renna hljóðlega niður brekkuna ofan í dalinn og lagði hjá húsinu. Þeir gættu þess að skella ekki bílhurðum. Marteinn fór fram fyrir húsið en Erlendur og Garðar inní bakgarðinn. Þar sáu þeir að rúða hafði verið brotin á garðdyrum. Þær stóðu opnar. Þeir læddust nær en sáu enga hreyfingu í húsinu. Þeir stigu inn fyrir og komu inn í stássstofu heimilisins þar sem þeir sáu konu á miðjum aldri sem sofnað hafði í sófanum með koníaksflösku í höndunum. Þeir heyrðu þrusk úr herbergisganginum. Garðar varð eftir hjá konunni en Erlendur læddist í áttina að hjónaherberginu. Þegar hann kíkti inn um dyrnar sá hann mann borra yfir fallegri kommóðu. Hann hafði fundið skartgripaskrín og var að hvolfa úr því í lófa sinn svo að hringlaði í og setja góssið ofan í buxnavasann. Erlendur fylgdist með honum athafna sig góða stund og sagði svo hátt og af mikilli festu:

- Hvað ertu að gera?!

Þjófinum brá svo hastarlega að hann stökk hrenilega í loft upp og gaf frá sér hvellan skræk. Hann var hins vegar fljótur að jafna sig, sneri sér snöggt við og áður en Erlendur gat nokkuð við ráðið stefndi þjófurinn á hann og hljóp hann niður. Erlendur missti jafnvægið og reyndi að ná taki á honum en tókst það ekki og þjófurinn hvarf út svernherbergisganginn, leit inní stássstofuna þar sem Garðar stóð enn yfir vinkonu hans sem svaf vært, tók svo strikið í átt að útidyrunum, svipti hurðinni upp og hljóp beint í fangið á Marteini sem sneri hann niður og lagði í götuna. Erlendur kom honum til hjálpar og þeir handjárnuðu þjófinn og settu inn í lögreglubílinn. Hann var þögull sem gröfin og neitaði að segja til nafns. Þeir þekktu hann ekki sem góðkunningja lögreglunnar.

Þeir þekktu ekki heldur konuna sem var förunautur hans í þjófaleiðangrinum og svaf hin rólegasta í stofunni með koníaksflöskuna í hendinni. Annaðhvort var hún dauðadrukkin eða örþreytt fyrst hún gat sofnað svona í miðjum klíðum og þrátt fyrir eltingarleikinn við félaga hennar. Þeir ræddu um það í hálfum hljóðum hvað þeir ættu til bragðs að taka. Garðari þótti synd að vekja hana en þeir komust ekki hjá því. Hann klappaði á hnéð á henni og skipaði henni að vakna og eftir nokkrar tilraunir tók hún að ranka við sér og opnaði loks syfjuleg augun. Hún horfði svefnsljó á lögreglumennina þrjá hvern á fætur öðrum.

– Hvað eruð þið að gera hérna? spurði hún undrandi.

– Við? sagði Marteinn. Hvað ert þú að gera hérna?

– Nei, ég meina ...

– Þú þarft að koma með okkur, sagði Garðar.

– Ég ... nei, ég meina ... vá, hvað meinarðu ... hvar er Dúddi? sagði konan og reisti sig upp.

Þeir litu hver á annan.

– Dúddi? sagði Maretinn og reyndi að hlæja ekki.

– Hvað ... hvar er hann?

– Dúddi bíður eftir þér úti í bíl hjá okkur, sagði Garðar. Viltu ekki fara til hans? sagði hann svo og rétti henni höndina.

Þeir vissu ekki enn hvort hún var kófdrukkin eða bara svefndrukkin. Konan horfði torryggin á þremenningana í svörtu einkennisbúningunum og tók loks í hönd Garðars sem studdi hana út úr húsinu reikula í spori. Hún hélt enn á koníaksflöskunni og fékk sér góðan sopa af henni áður en hún rétti Garðari hana.

– Vilt þú ekki fá þessa? sagði hún.

– Eigðu hana bara, sagði Garðar. Þú getur gefið Dúdda með þér.

Erlendur forðaðist á líta á Martein sem barðist við hláturinn. Dúddi byrjaði að hella sér yfir konuna með ófögrum orðum þegar þeir settu hana inn í bílinn til hans. Í ljós kom að hún áttu að standa vaktina og láta vita ef einhver nálgaðist húsið en hafði brugðist honum svona herfilega.

– Andskotans fyllibyttan þín! hvæsti Dúddi, að vonum gramur.

– Góði þegiðu, sagði konan og hengdi haus eins og hún hefði oft áður verið skotspónn Dúdda og aldrei haft sigur.

(97-9)