Reykjavík

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1969
Flokkur: 


Með ljósmyndum eftir Leif Þorsteinsson.

Úr Reykjavík:

Reykjavík - landnámsjörðin

Það var mynd, en ekki maður, sem fyrst nam land í Reykjavík. Öndvegissúla, rauðsteind og skorin þrúðugum andlitum, liggur hálfgrafin í fjörumálinu, forboði mannsins sem skaut henni fyrir borð sér til hamingjuvísis og kemur nú sunnan yfir fjöll með þrælum sínum og hjúaliði, í þessa vík, þar sem guðirnir hafa kjörið honum bólstað. Þann veg greina elztu skinnabækur okkar frá fyrsta landnema Íslands, Ingólfi, syni Arnar á Fjölum í Sogni, og þær nafngreina staðinn sem hann helgaði sér til ábúðar: Hann bio i Reykiar vik.

Saga þessi stóð á bókum mörgum öldum áður en hér myndaðist önnur byggð en bær þessa myndleitarmanns, öldum áður en nokkurn gat grunað að einmitt hér við víkina, þar sem straumarnir kusu guðamyndunum höfn, risi síðar höfuðborg Íslands. Væri ekki svo, mætti ætla söguna táknlegan skáldskap, um anda og trú sem undanfara efnis, um forsjón sem sé æðri en ályktun mannsins sjálfs, setta saman í borginni Reykjavík til vegsemdar. Samt sem áður helzt hvorttveggja í hendur, handan yfir aldirnar, landnámsbær og höfuðborg. Þegar sæfari kemur að suðurströnd Íslands, er það hafnleysa, en straumar liggja vestur með landi. Fylgi hann þeim, er hvergi lendandi höfn fyrr en kemur í Faxaflóa, og fyrsti staðurinn þar sem býður honum bæði höfn og grösugt undirlendi, það er Reykjavík.