Randalín og Mundi

randalín og mundi
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 

 

Þórarinn M. Baldursson myndskreytti.

Um bókina

Hver býr í kassa og gleypir mús annan hvern sunnudag? Er leyfilegt að rífa skemmtilegar bækur? Hvernig kemst maður í kynni við dáleiðanda?

Hér segir frá Randalín og Munda sem vita svörin við þessum spurningum og kunna ekki að láta sér leiðast.

Randalín og Mundi er fyrsta barnabók Þórdísar Gísladóttur.

Úr bókinni

   Jakob Múhameð gekk inn fyrir skápinn þar sem ljósið lýsti. Hann rétti úr handleggnum og benti þeim að koma. Randalín og Mundi læddust á eftir honum. Á hillu fyrir ofan rúmið var glær plastkassi með rauðu loki með götum. Fyrir ofan hann var hitalampi með peru sem varpaði skærri birtu. Jakob Múhameð tók kassann og setti hann varlega á rúmið. Þá sáu Mundi og Randalín dálítið hræðilegt og urðu smeyk, eða eiginlega bara skíthrædd. Í kassanum var snákur, hann var alveg eins og sá sem var á handlegg Jakobs. Hann tók lokið af og setti lófann undir snákinn og tók hann upp. Svo hélt hann á honum með báðum höndum og lét hann því næst skríða upp eftir handleggnum á sér. Snákurinn var í raun óskaplega fallegur, rauður og appelsínugulur með svörtum röndum. Hann var álíka langur og handleggurinn á eigandanum en miklu mjórri.
   - Þetta er Guttormur kornsnákur, sagði Jakob Múhameð. Ættaður frá Ameríku en fæddur í Breiðholtinu. Hann skiptir um ham á tveggja mánaða fresti en er að öðru leyti algerlega til friðs og mikill gleðigjafi. Viljiði prófa að klappa honum?
   Mundi rétti hikandi fram höndina og strauk honum mjög laust með einum fingri. Snákurinn var volgur og mjúkur.

(s. 42-43)