Rancas - þorp á heljarþröm

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1980

Um þýðinguna

Skáldsagan Redoble por Rancas eftir Manuel Scorza í þýðingu Ingibjargar.

Úr Rancas - þorpi á heljarþröm

 - Hvaða númer eruð þér með, doktor? - spurði Herón ákafur.

 Doktor Montenegro rétti fram miðana með hrokafullri handahreyfingu. Fröken Jósefína kom öllu í samt lag á nýjan leik, rjóð í vöngum eins og Herón hefði í raun og veru játað henni ást sína.

 - Haldið áfram! - skipaði hún.

 - Áfram með happdrættið, áfram með happdrættið! - öskraði kynnirinn. Litli matrósinn hristi blikktunnuna. Í þvögunni notuðu elskendur tækifærið til að þreifa fyrir sér meðan fólkið beið. Engill gæfunnar dró upp miða og rétti hann fröken Jósefínu.

 - Þrettán! - kallaði skólastýran.

 - Hver á númer þrettán? - spurði Herón.

 - Ég, - svaraði doktor Montenegro hæversklega.

 Ermigio Arutingo veitti viðtöku hrokafullum Ástralíuhrúti. Doktorinn hafði ekki hikað við að velja sér miða með ógæfutölunni sjálfri, enda færði hún honum alltaf heppni. Talan sjö - eftirlæti töframanna - tryggði honum annan hrút. Númer þrjátíu og fjögur var stór tala og virðuleg og út á hana fékk hann eina svartflekkótta hrútinn í hópnum. Núllið - æðsta talan í indverskri heimspeki - færði honum fjórða hrútinn, glæsilegt dýr sem dó því miður nokkrum dögum síðar. Fimmta hrútinn fékk hann á númer sextíu og sex. Almúginn slefaði af undrun. Hvílík heppni! Það er erfitt að halda mannfjölda í skefjum, en það tókst í Yanahuanca. Fólkið yfirgaf söluskúrana og þyrptist að. Það laðaðist að þessari yfirgengilegu heppni eins og málmur að segulstáli. Þeir trúðu varla eigin augum, heimskingjarnir.

 - Þetta er ótrúlegt!

 - En sú heppni!

 - Guð er ekkert að skafa utan af því, þegar hann gefur á annað borð!

 - Hann var heppinn, jafnvel með ljótu númerin!

 - Sextíu! - kallaði fröken Jósefína.

 - Hérna! - svaraði frú Pepíta og ljómaði.

 - Fullt hús, guðfaðir! - sagði aðstoðarsýslumaðurinn glettnislega.

 - Við étum einn þeirra, - lofaði doktorinn honum, og sneri sér síðan að fröken Jósefínu: - þetta er einum of mikið, fröken Fína; það er best ég dragi mig í hlé, mín kæra!

 - Nei, nei, nei, - sagði hræsnisfull skólastýran. - Ætlið þér að móðga okkur? Eigum við nokkuð að leyfa okkar kæra doktor að draga sig í hlé?

 - Fyrst svo er skal ég vera hér í allan dag, kæra Fína.

 Númer níutíu - óþekkt tala og fortíðarlaus - gerði hann að eiganda níunda hrútsins og númer sextíu og níu - talan sem kemur gárungunum alltaf til að flissa - færði honum tíunda hrútinn. Almúginn var þrumu lostinn.

átalarinn spúði úr sér tangólagi sem boðaði tilgangsleysi baráttunnar gegn galdrinum. Hinn ógleymanlegi Carlitos Gardel kjökraði:

 “Enginn má sín neins gegn örlögunum...”

(s. 75-76)