Raddir í garðinum

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992

Úr Röddum í garðinum:


Garðurinn

Garðurinn. Það er einhver garður, hann hefur vaxið og vaxið. Kannski hann sé kominn í órækt. Þótt mér finnist það ekki sjálfum. En hann hefur vaxið villt í hug mér þessi garður bernsku minnar eða hvað hann er, þessi garður.
Þetta er einskonar útópía. Staðleysa. Hann er nefnilega hvergi. Nema í hugsun minni og er þessvegna raunveruleiki. Ég finn ilm þaðan, og sé einhver drög að myndum þaðan einsog í margofanítekinni ljósmynd, það er einhver svipur eða myndakrot í háttflækju, líktog auga í trjálimi leynt milli laufblaðanna, skuggar af glenntum fingrum í gullnu grasi, eitthvað sem hreyfir hugsun einsog athvarf, einsog vissa um að eiga tjald með nesti í hvammi á gróðurlausum fjöllum, niðri í gljúfri í auðninni margtalandi og myndkvikri.
Og garðurinn vex. Hvaða garður er þetta sem ég er að burðast með í hug mér þyngdarlausan og þrunginn hvíslandi röddum sem aldrei heyrast ljúka setningu fremur en þyturinn í haustlaufi sem losnar, fremur en niður lækjarins, áin á flúðum, þögnin þegar brumið brýzt fram á öngum vortrjánna. Raddirnar sem tala hinumegin við fjallið, að baki eða framundan.

(s. 5)