Persónur og leikendur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982
Flokkur: 

Úr Persónur og leikendur:

Um leið og laginu lauk fjöruðu áhrifin og myndirnar dofnuðu. Leitarinn hélt áfram að fálma um himingeiminn og ein stöð að renna inn í aðra. Hann var nítján ára. Staddur á tímabilinu Halldór Guðjónsson frá Laxnesi 1921. Fram undan var utanför og aðdragandi að Vefaranum mikla frá Kasmír með viðkomu í Undir Helgahnúk og Heiman ek fór.
 Hve auðvelt að eiga þessi verk óskrifuð í samanburði við hin sem hann var búinn að missa af. Barni náttúrunnar og Barnæskuverkunum.
 Ég skrifaði þúsundir af blaðsíðum heima í Laxnesi og átti fullar kistur af útskrifuðum stílabókum, - skáldsögur, smásögur, ljóð, tímarit og blöð (sem ég gaf út fyrir sjálfan mig), ritgerðir um trú, stjórnmál, heimspeki – alt milli himins og jarðar og loks dagbækur.
 Bara að hann hefði í tæka tíð búið í haginn fyrir sig sem höfundur. Í sveitinni hafði hann sett saman vísur um hundinn og köttinn. Einhvers staðar átti hann heimatilbúna myndasögu með frumsömdum neðanmálstextum. Hafði nokkur höfundur lagt upp með minna?
 Til að verða sér úti um klæðskerasaumuð föt var hann búinn að púla allt sumarið á Langafirði. Fyrsta bók sem hann opnaði eftir heimkomuna var Heiman ek fór:
 Það er líkt og sé mér ásköpuð römm andstygð á erfiðisvinnu. Nú er ég bráðum tuttugu og tveggja ára og hef aldrei til þessa dags unnið ærlegt handarvik...
 Hver var formúlan að Halldóri Kiljan? Hvernig átti að fara í fötin hans?
 Hann reyndi að snuðra uppi alla áhrifavalda sem Halldór gerði opinskáa. Lagði á sig að lesa Bókina um Veginn, Tómas A. Kempis og Íhuganir Árelíusar. Bar saman bernsku og uppvöxt.
 Halldór: “Foreldrum mínum kom vel saman.”
 Hans voru skilin.
 Halldór: “Faðir minn var stiltur maður og allra manna vinsælastur og hafði sérstakt lag á að ávinna sér virðingu manna.”
 Í Andra augum var Haraldur eins og hver önnur vél til að reikna út hvernig sálarlaust fyrirtæki gæti borið mestan arð. Frá því að hann las Vefarann mikla frá Kasmír hafði honum aldrei dottið í hug að telja föður sinn annað en fífl.
 Halldór: “Móðir mín var ákaflega skapmikil kona, einkum á yngri árum.”
 Andri gat ekki betur séð en því væri öfugt farið með Ástu. Upp á síðkastið hafði hún allt á hornum sér.

(s. 10-11)