Paradísarborgin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 
Af bókarkápu:

Maður á miðjum fertugsaldri flytur inn á æskuheimili sitt til móður sinnar eftir að farið þeirra hans verður bráðkvaddur. Hin nýja heimsmynd kallar á breytingar og móðir hans ákveður að flytja niður í kjallara hússins. En við undirbúning í kjallaranum rekst maðurinn og eldri bróðir hans á óvæntan gest sem mun breyta lífi þeirra og annarra borgara til frambúðar.

Úr Paradísarborginni:

Ljósastaurarnir slánalegu lýstu leiðina heim, einhenti maðurinn fylgdi slóð þeirra þar til hann gekk inn götuna sína, þessa götu sem hann hafði gengið svo óteljandi oft áður, fyrst sem barn, svo drengur, síðan unglingur og nú aftur, síðar á lífsleiðinni, sem einhentur maður. Það var farið að dimma lítillega, þó bjartara í dag en í gær því daginn var farið að lengja, og því tók einhenti maðurinn fagnandi, sem og aðrir borgarbúar. Eftir því sem sá einhenti færðist nær húsinu sínu fann hann hverngi einkennileg lykt, sem minnti á fúkkafýlu, stigmagnaðist með hverju skrefinu. Hann leit grunsamlega í kringum sig, velti vöngum yfir því hvaðan lyktin kæmi, hvort hún kæmi hugsanlega frá húsinu hans, síðustu skrefin tók hann hratt.

Fnykurinn inni í húsinu var enn verri, það fyrsta sem hann sá á miðhæðinni hjá mömmu sinni voru opnir gluggar og viftur sem reyndu að feykja ólyktinni út, þær vöktu forvitni kattanna sem gistu kattahótelið, þeir skemmtu sér konunglega við að horfa á vifturnar færast frá hægri til vinstri og svo aftur til baka, og þótt hreyfingin væri vissulega einföld og fyrirsjáanleg kom hún þeim á óvart, og þess vegna sátu þeir spakir og störðu á vifturnar.

- Hvað gerðuð þið bræðurnir eiginlega í dag? spurði mamman um leið og hún sá son sinn, hann kom af fjöllum, hún útskýrði að stuttu eftir að hann hefið farið í sund hefði viðbjóðsleg fúkkalykt streymt upp frá kjallaranum inn til hennar.

- Það getur ekki verið. Við fundum myglusvepp í kjallaranum í morgun en við hreinsuðum hann burt án vandræða, svaraði einhenti maðurinn.

- Það er að minnsta kosti eitthvað þarna niðri. Svo mikið er víst, sagði mamman, bað son sinn að kíkja niður til að sjá hvað væri þar á seyði, og einhenti maðurinn tók stefnuna tafarlaust á kjallarann, þurfti að halda fyrir nefið áður en hann steig inn í sjálfa kjallaraíbúðina því fúkkafýlan var honum um megn.

Mamma hans hafði á réttu að standa, þarna niðri var eitthvað, því myglusveppurinn hafði birst aftur á veggnum, virtist bæði skríða undan parketinu og úr gatinu sem þeir bræðurnir höfðu gert á eldhúsvegginn. Hægum skrefum gekk einhenti maðurinn að sveppnum, líkt og til að trufla hann ekki, kom loks alveg upp að honum, starði á hann, snerti með fingurgómunum, fann slímuga áferðina. Það fór ekki á milli mála að sveppurinn var bæði stærri og dekkri en áður, auk þess sem myglulyktin var margfalt sterkari en þegar þeir rifu eldhúsinnréttinguna niður í gær.

(18-20)