Óvinafagnaður

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Úr Óvinafagnaði:

 „Sighvatur Sturluson var drepinn og synir hans allir,“ endurtók æsta röddin þarna frammi, - ég var næstum búinn að hrópa: „Ég er nú ekki dauður enn!“ en ég hafði mig ekki í það. Og ég kom mér heldur ekki til þess að standa upp frá taflinu og fara fram til þeirra hinna og fá nánari fregnir. Því nú lék andstæðingur minn, hann lék kóngsleik, vék sér undan skákinni, en þetta var afleikur, nú var honum öllum lokið.
 „Sturla Sighvatsson fór með herflokk í Skagafjörð til að ganga endanlega frá Kolbeini unga. En Kolbeini tókst ásamt Gissuri Þorvaldssyni að yfirbuga Sturlunga, og þeir voru stráfelldir! Það lagðist víst lítið fyrir kappana, þeir vour drepnir eins og hundar, leiddir til slátrunar í fjárrétt á Örlygsstöðum!“
 Andstæðingur minn við taflborðið var líka farin að gefa tíðindamanninum gaum. Mér fannst nær að hann hugsaði um taflborðið, og þær hörmungar sem þar héngu yfir höfðum hans.
 Ég lék aftur. „Skák.“
 „Ríki Sturlunga liggur í rústum,“ æpti sá fréttaglaði. „Ættingjar þeirra og stuðningsmenn kváðu vera hundeltir og gripnir hvar sem til þeirra næst.“ 
 Andstæðingur minn bar fyrir sig biskup. En nærtækast hefði verið að gefast upp eins og málum var komið.
 „Halldóra Tumadóttir, sem áður var auðugust íslenskra kvenna, hún er sögð ráfa um í flokki förukellinga, á snöpum á milli bæja norðanlands!“
 Andstæðingur minn sperrti eyrun og horfði fram á ganginn, mér sýndist hann glotta. Andartak lá við að ég stykki á hann, því það var verið að hæðast að elskulegti móður minni, en hann áttaði sig ekki á því.
 „Sighvatur var drepinn, og synir hans; Sturla, Kolbeinn, Markús og Þórður krókur!“
 Nú hrökk andstæðingur minn við, hann leit snöggt á mig og augun urðu stór og undrandi, hann var að koma einhverju fyrir sig, - við höfðum lengi verið samvistum þarna í hermannaskálunum.
 „Bíddu, ert þú ekki einn af þessum bræðrum?“
 Ég lék hrók og sagði:
 „Fleiru slátra Íslendingar en baulum einum.“ Kannski ekki sérlega fyndið, en það eina sem mér kom í hug. Fyrir utan það sem fylgdi hróksleiknum: „Mát.“

(s. 19-20)