Óvænt endalok

Óvænt endalok, Ævar Þór Benediktsson
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2019
Flokkur: 

Bókin er nr. 5 í bókaflokkinum um bernskubrek Ævars vísindamanns.

Rán Flygenring myndskreytti.

um bókina

VARÚÐ! Í þessari bók er allt það hættulega úr fyrri bókunum – og meira til!

Í bókunum um bernskubrek Ævars vísindamanns hefur Ævar þurft að gabba risaeðlur upp á hálendi Íslands, takast á við gervigreind, ná sambandi við geimverur og sigrast á ofurhetjuvíddar-útgáfu af sjálfum sér.

En þótt allar bækurnar hafi fengið farsæl endalok er ekkert sem segir að þessir furðulegu andstæðingar geti ekki snúið aftur!

úr bókinni

Þau námu staðar við skólann og bundu Nótt og Létti við næsta ljósastaur. Hestarnir voru himinlifandi að fá smá hvíld. Lítill grasbali var fyrir framan skólann og þó að grasið væri enn ekki orðið almennilega grænt gátu þeir samt fundið sér smá æti.

"Jæja," sagði Kristbjörg spennt. "Hvað nú?"

"Nú ferð þú með hestana til baka, auðvitað," sagði Rakel Líf og hló. Kristbjörgu fannst þetta ekkert fyndið. Ævar sussaði á Rakel og benti á Ísold sem sat einbeitt á svip á jörðinni og starði á skjáinn. 

"Ekki trufla," hvíslaði Ævar. Rakel kinkaði kolli og beygði sig til að sjá betur á tölvuna. 

"Hvað gerum við?" spurði hún vinkonu sína. Ísold gretti sig.

"Sko," byrjaði hún og benti á skjáinn, "ég skil þetta bara ekki alveg. Uppruni merksisin, uppruni Sæborgar, virðist vera nákvæmlega hér," og hún leit á skólann. Öll ljós voru slökkt. Skólinn virtist galtómur - líkt og allur bærinn. Ísold hélt áfram: "Stóri rauði punkturinn sem við erum búin að vera að elta síðan í Reykjavík er hér en samt virðist ekkert vera í gangi."

"Hver er Sæborg aftur?" spurði Kristbjörg spennt.

"Gervigreindi," svaraði Rakel Líf.

"Ahh ..." sagði Kristbjörg og kinkaði kolli. "Einmitt. Gervigreindin. Sem var einu sinni skólastjóri." Ævar leit á hana og hélt að hún væri að gera grín að þeim. Hann sá um leið að það var alls ekki það sem Kristbjörg hafði í huga. Hún var bara að reyna að skilja þetta allt saman.

"Já," svaraði hann. "Sem var einu sinni skólastjóri."

"En var samt aldrei til í alvörunni, bar í alls konar tölvum og skjám og er núna búin að taka yfir gangaver og stjórnar öllu rafmagni, vatni og hita á landinu?" Ævar kinkaði kolli. Rakel Líf hnussaði óþolinmóð. 

"Eftir hverju erum við að bíða? Þótt skólinn sé tómur er kannski eitthvað inni í honum." Hún arkaði af stað upp tröppurnar sem lágu að skólanum. 

"Bíddu!" hrópaði Ævar og hljóp á eftir henni. "Við vitum ekki við hverju við megum búast!" Rakel Líf hlustaði ekki. Gengið var inn í skólann um tvennar samliggjandi dyr og Rakel tók þétt um húninn á annarri hurðinni og kippti í.

Dyrnar opnuðust ekki.

(s. 118-120)