Óskasonurinn

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1978
Flokkur: 

Úr Óskasyninum:

En brátt renna þau heim í hlað í Auðsholti, og ferðalagið er á enda. Engin hreyfing er sjáanleg. Feðgarnir eru bersýnilega gengnir til náða. Magnús snarast út úr jeppanum og opnar síðan fyrir Gígju. Og í annað sinn á þessu kveldi réttir hann henni hönd sína til stuðnings, á meðan hún stígur niður úr jeppanum. Og eins og áður leggur hún hönd sína í hans, um leið og hún ætlar að stökkva léttilega niður á hlaðið. En að þessu sinni verður henni fótaskortur. Og í stað þess að koma standandi niður á eigin fótum, fellur hún óviðráðanlega í fang Magnúsar. Sterkur armur hans grípur fast um hana, og hún fótar sig þegar, en síðan standa þau þannig kyrr örfá andartök. Heitur fögnuður brýst fram í barmi þeirra beggja. Tunglsljósið verður bjartara en áður, þögnin enn dýpri. En örfá andartök líða fljótt. Gígja losar sig úr fangi Magnúsar og færir sig aðeins fjær. „Ég þakka þér fyrir hjálpina, Magnús,“ segir hún fljótmælt og hálfvandræðalega, „þvílíkur klaufaskapur, ég var nærri dottin.“ Hann lítur beint í augu hennar í skærri birtunni um leið og hann svarar heitum, djúpum rómi: „Það var dásamlegur klaufaskapur, Gígja. Ég þakka þér fyrir samveruna í kvöld.“ „Sömuleiðis, Magnús,“ segir hún og hefur nú fullt vald yrir rödd sinni. Síðan ganga þau hljóðlega inn í húsið. Og tunglskinsbjört, friðsæl vetrarnótt ríkir yfir höfuðbólinu að Auðsholti.

(s. 64)