Ört rennur æskublóð

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1972
Flokkur: 

Úr Ört rennur æskublóð:

Inn í draumlausan svefn hans, barst einhver truflun. Hún var fyrst óljós en skírðist smátt og smátt og varð að rödd manns, er kallaði: - Ræs! Hann hafði varla lokið upp augunum, er hönd ýtti við honum og kallað var inn í kojuna, ræs! Röddin var há en mjó og smaug inn um hlustirnar, boraði sér óþægilega eitthvað langt inn í höfuðið. Það var áreiðanlega dauður maður, sem ekki gat vaknað við þessi hljóð. Logi reis upp við dogg og horfði á hina væntanlegu félaga sína losna úr viðjum svefnsins. Skafti var kominn í fötin nema í peysuna - svellþykka, gráa lopapeysu með trosnaða snúninga. Hann hélt henni á handleggnum, lagfærði snúin axlaböndin, leit síðan fránum augum á drenginn og mælti lágt: - Við fáum graut. Hann er góður við sjóveiki. Svo lagði hann af stað upp stigann hægum, þungum skrefum. Einhver spurði um veðrið. Sú spurn heyrðist óglöggt vegna þess, hve spyrjandinn geispaði langt. Það var ungur maður, lágur og þrekinn með sítt hár. Handleggir hans voru furðu sverir og þaktir svartri ló. Þeir skörtuðu einnig skræpóttum myndum, sem listamenn hafnarborganna austan Atlantshafs í þeirri grein er hörundsflúrun nefnist, höfðu gert á þessa gildu, íslenzku sjómannshandleggi. Stærsta myndin var af nakinni stúlku og yfir öxl hennar lá lævís slanga og teygði hún haus sinn niður á milli bústinna brjósta stúlkunnar. Loga varð starsýnt á þessa mynd og honum fannst hún meistaralega gerð og það var einna líkast, sem stúlkan og slangan væru lifandi, vegna kvikra vöðvahreyfinga mannsins. Svona mynd ætlaði Logi að láta gera á sína handleggi, þegar hann kæmi út og hann fór að kreppa vöðvana og reyna að fá þá til að hreyfast fjörlega.

(s. 71-72)