Ormurinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Myndir eftir Áslaugu Jónsdóttur.

Úr Orminum:

 - En Rósa mín, hvað ertu að segja? spurði mamma og tók hana í fangið. 
 - Ef það er ekki berjaormur og heldur ekki hringormur sem skríður um í maganum á þér hvaða ormur er það þá? stundi Rósa og tárin runnu niður kinnarnar.
 - Hvaða orm ertu að tala um, barn? spurði mamma hennar undrandi.
 - Þú varst sjálf að tala um hann í gærkvöldi, svaraði Rósa og reif sig lausa. Pétur segir að það geti ekki verið berjaormur og amma hans í frystihúsinu segir að hringormarnir séu alls ekkert hættulegir. Pétur heldur að þetta sé mjög sjaldgæfur ormur sem birtist bara á þúsund ára fresti, hann er næstum því útdauður eins og risaeðlurnar... Og þú mátt ekki fara til Ameríku og láta setja uppblásna blöðru í magann á þér, eins og afi hans Gumma gerði, því hún getur sprungið og þá deyrðu... Rósa var að kafna af því að hún grét svo mikið og talaði svo hratt.
 - Elsku barn, ég skil bara ekkert hvað þú ert að tala um, sagði mamma hennar og horfði ráðalaus á Rósu.
 - Í gærkvöldi heyrði ég að þú sagðir við pabba: Nú er hann aftur kominn ormurinn í magann á mér. Og svo varstu alveg hræðilega alvarleg. Ertu búin að gleyma þessu?
 - Varst þú að hlusta á það sem við pabbi þinn töluðum?
 - Nei, ég var ekkert að hlusta. Ég sat bara með kisu undir eldhúsborði, við ætluðum einmitt að fara í ferðalag til útlanda en svo langaði mig ekkert að fara þegar ég var búin að heyra um orminn, sagði Rósa snöktandi.

(s. 40-41)