Olla og Pési

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 


Úr Ollu og Pésa:

Og þá sá hann það. Bréfið. Það var í bleiku umslagi og það var ilmvatnslykt af því.
„Til Bárðar og sona hans,“ stóð utan á umslaginu.
- Sæktu pabba. Það er kominn póstur til hans, sagði Gísli og rétti bréfið upp að nefinu á Bessa.
Bessi hnerraði svo að bréfið fauk undir rúm. Svo fór hann fram og sótti föður þeirra meðan Gísli skreið eftir því.
Bárður tók umslagið, hnusaði af því og snýtti sér í stóran mórauðan vasaklút. Svo opnaði hann bréfið. Gísli og Bessi teygðu fram álkurnar til að sjá sem best.
Þeir lásu upphátt í einum kór.

Kjæru vinir.
Jeg vona að þið verðið ekki reiðir þó jeg fari og skilji hana Lillu litlu efftir hjá ikkur. jeg atla með vini mínum til amirígu og jeg kem ekki til baka. Þið meigið eiga Lillu og velja á hana nafn sem ikkur finst fallegt. Jeg var aldrei búinn að koma því í verk að skíra hana. Jeg veit að henni lýður betur hjá ikkur en mjer. jeg hef aldrei verið svo migið firir börn. Pabbi henar var einkver údlendíngur sem jeg þegti lítið. hann veit ekki að hún er til. Mig langar að biðja Bessa að vera pabba henar, þá er bárður afi henar og jeg veid að Gísli verður ekki verri mamma en jeg hefði orðið. Það er vest að hún sguli ekki eignast neina ömmu.

Verið þið nú blesaðir og þökk firir mig. Jeg sendi ikkur kansgi póstkort seinna.
Bíbí.
Ps. Lilla verður tveggja ára á morgun.

Feðgarnir litu hver á annan orðlausir. Svo litu þeir á rúmið þar sem Lilla litla stóð og teygði bústna handleggina í áttina til þeirra.

(s. 10-11)