Ólafur Haukur Símonarson : ritþing 10. nóvember 2001

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Umsjón: Kristján Þórður Hrafnsson.

Samantekt: Sigvaldi Júlíusson.

Úr bókinni:

Eitt af slagorðunum `68 var: „Látum ímyndunaraflið ráða“, og það skyldi ná til allra þátta lífsins, persónulegra, félagslegra, og ekki síst til listarinnar þar sem fram fór endurskoðun á ýmsum gildum. „Hugvíkkun“ varð slagorð; að sumu leyti líka afturhvarf til súrrealisma og dadaisma, og kýlt á „hugvíkkunina“ með ýmsum efnum, t.d. hassi og LSD. Svo leið tíminn og vagninn byrjaði að spóla og allir urðu óþolinmóðir eins og gengur. Hassið og LSD leiddu ógæfu yfir marga. Þá vildu menn pólitíska vakningu, og þóttust sjá að ekki væri hægt að koma á varanlegum breytingum nema með kerfisbundinni hugsun, pólitískum manifestum og hörðum flokksaga. Þessi fljótandi frontur af ungu fólki, og jafnvel miðaldra fólki sem vildi breytingar og breytti mörgu, var eiginlega gleyptur af sögunni; lenti í hakkavélinni stóru. Sumir urðu örvæntingarfullir og leiddust út í sívaxandi róttækni, og það urðu til klíkur og kredduhópar, sumir afar öfgafullir; hópar eins og Baader Meinhof í Þýskalandi sem hreinlega hraktist yfir í að reyna vopnaða uppreisn og hryðjuverk til að kollsteypa því samfélagi sem þau lifðu í. Þetta fjaraði svo smátt og smátt út því samfélagið var ekki tilbúið til byltinga. Meginþorri unga uppreisnarfólksins hneig aftur til síns borgaralega eða smáborgaralega upphafs. En það merkilega er að breytingin stóð að stórum hluta eftir, Margt af því sem okkur þykir sjálfsagt í dag átti sé upphaf í æskuuppreisninni 1968. Krafan um málfrelsi, skoðanafrelsi, áhrif á ákvarðanatöku og vinnulýðræði náði jafnvel um síðir hingað til lands. Olga Guðrún, vinkona mín, þýddi bók sem hét Uppreisnin á barnaheimilinu, því lýðræðisuppreisnin átti að ná til allra; meira segja barnanna sem áttu að ráða því hvernig barnaheimilið þeirra var rekið. Þetta var allt í besta lagi og hefur skilið eftir hugtök eins og lýðræði á vinnustöðum, lýðræði í skólum o.s.frv. Þetta skyldu menn ekki vanmeta.

(9-10)