Ódysseifur (síðara bindi)

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993

Tvö bindi. James Joyce: Ulysses 

Úr Ódysseifi (síðara bindi):

* Hverjar voru þær samsíða rásir sem þeir Bloom og Stephen fylgdu í bakaleiðinni?
 Sameiginlega lögðu þeir báðir upp á venjulegum gönguhraða frá Beresfordtorgi og fóru sem leið lá um Neðra og Mið-Gardinerstræti og Vestra Mountjoytorg; sneru síðan báðir til vinstri á hægagangi yfir Gardinertorg og í ógáti allt yfirað hinu horninu á Nyrðra Templetorgi; þvínæst á hægagangi með hléum til hægri eftir Templestræti í norður alltað Hardwicketorgi. Þegar þeir nálguðust hvor í sínu lagi fóru þeir á afslöppuðum gönguhraða þvert yfir hringtorgið fyrir framan Georgskirkju, meðþví strengurinn í hverjum hring er styttri en hringboginn sem er honum mótstæður.
 Um hvað ræddu tvímenningarnir á göngu sinni?
 Tónlist, bókmenntir, Írland, Dyflinni, París, vináttu, konur, vændi, mataræði, áhrif gasljóss eða bogaljóslampa og glóðarlampa á vöxt nálægra ljósleitinna trjáa, aðgengilegar öskutunnur bæjarfélagins, rómversk-kaþólsku kirkjuna, einlífi presta, írsku þjóðina, uppeldi jesúíta, ævistörf, læknanám, liðinn dag, skaðleg áhrif föstudags, yfirlið Stephens.
 Uppgötvaði Bloom einhverja þætti sem voru sameiginlegir líkum og ólíkum viðbrögðum þeirra við reynslunni? 
 Báðir voru opnir fyrir listrænum áhrifum, fremur á sviði tónlistar en málara- eða höggmyndalistar. Báðir tóku lífshætti meginlandsins frammyfir líferni eyjarskeggja og kusu heldur að búa hérnamegin Atlantshafs en handan þess. Báðir áttu það uppeldi frá blautu barnsbeini og arfþeginni fastheldni að þakka, að þeir voru forhertir í viðnámi gegn ríkjandi skoðunum og játuðu vantrú sína á margar algildar trúarlegar, þjóðlegar, félagslegar og siðgæðislegar kenningar. Báðir viðurkenndu ýmist örvandi eða letjandi áhrif af aðdráttarafli hins gagnstæða kyns.
 Stönguðust viðhorf þeirra í einhverjum greinum á?
 Stephen var opinskátt ósammála skoðunum Blooms á mikilvægi mataræðis og borgaralegrar sjálfshjálpar þarsem aftur Bloom var í þögulli andstöðu við sjónarmið Stephens um eilífa birtingu mannsandans í bókmenntunum. Bloom var með leynd samþykkur leiðréttingu Stephens á tímaskekkjunni, sem fólst í að tímasetja fráhvarf írsku þjóðarinnar frá drúídatrú til kristinnar trúar fyirir tilbeina Patreks sonar Calpornusar, sonar Potitusar, sonar Ódysseifs, sem sendur var af Celestinusi fyrsta páfa árið 432 á stjórnarárum Learys, og ársetja það 260 eða þarumbil á stjórnarárum Cormacs MacArts (d. 266), sem kafnaði af völdum ófullburða kyngingar fæðu í Sletty og var grafinn í Rossnaree. Yfirliðið, sem Bloom taldi stafa af þróttleysi magans vegna næringarskorts og vissum kemískum efnasamböndum með mismunandi stigum mengunar og alkóhólmagns, sem flýtt var af andlegri áreynslu og hraða mjög snöggrar hringlaga hreyfingar í afslöppuðu andrúmslofti, það stafaði að dómi Stephens af því að aftur birtist árdegisský (sem báðir höfðu komið auga á frá ólíkum sjónarhólum í Sandycove og Dyflinni) og var í byrjun ekki stærra en kvenmannshönd.
 Voru viðhorf þeirra í einhverjum punkti hin sömu og neikvæð?
 Áhrif gasljóss eða rafljóss á vöxt nálægra ljósleitinna trjáa.

(s. 260-261)