Ódysseifur (fyrra bindi)

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992


Tvö bindi. James Joyce: Ulysses 

Úr Ódysseifi (fyrra bindi):

* Stæðilegur og bústinn kom Buck Mulligan onaf efsta stigapalli og hélt á sápuskál sem spegill og rakhnífur voru krosslagðir yfir. Gulur morgunsloppur flaksaði frá honum og lyftist mjúklega í mildum morgunblænum. Hann hélt skálinni á loft og tónaði:
 - Introibo ad altare Dei.
 Hann nam staðar, skimaði niður hringstigann og hrópaði rustalega:
 - Komdu upp, Kinch! Komdu upp, skelfilegi jesúíti!
 Hann steig virðulega fram og fór uppá kringlóttan skotpallinn. Hann snerist á hæli og blessaði hátíðlega í þrígang turninn, landið í kring og fjöllin sem voru að vakna. Þá kom hann auga á Stephen Dedalus, laut í átt til hans og gerði snögg krossmörk útí loftið, skolaði hálsinn með skvaki og hristi hausinn. Stephen Dedalus, skapstyggur og syfjaður, lagði handleggina frammá handriðið og horfði kuldalega á titrandi skvakandi andlitið sem blessaði hann, langt einsog á hrossi, og bjart skallalaust hárið, sléttgreitt og með blæ af ljósri eik.
 Buck Mulligan gægðist snöggvast undir spegilinn og þakti svo skálina snyrtilega.
 - Aftur til herskálans! sagði hann stranglega.
 Hann bætti við einsog prestur:
 - Því þetta, ó mínir elskanlegu, er hin sanna Kristín kvöldmáltíðarinnar: líkami og sál og blóð og benjar. Hæga tóna, takk. Lygnið augunum, herrar mínir. Andartak. Lítilsháttar vandræði með hvítu blóðkornin. Þögn, allir.
 Hann leit upp á ská og blístraði lágt og lengi einsog til að kalla, beið þvínæst stutta stund uppnuminn af eftirvæntingu, og á jöfnum hvítum tönnunum glitraði hér og hvar á gulldíla. Krýsóstómos – Gullinmunni. Tvö kraftmikil og hvell blístur bárust til andsvars gegnum morgunkyrrðina.
 - Takk, gamli vinur, hrópaði hann hvatlega. Þetta gengur bærilega. Viltu vera svo vænn að rjúfa strauminn?
 Hann stökk niðraf skotpallinum, leit hátíðlega á áhorfandann og sveipaði lausum fellingum sloppsins um fætur sér. Bústið og angurvært andlitið og þungbúinn egglaga vanginn minntu á preláta, verndara lista á miðöldum. Vingjarnlegt bros breiddist smátt og smátt um varirnar.
 -Hvílík háðung! sagði hann glaðlega. Þetta fáránlega nafn þitt, Forngrikki!
 Hann lyfti fingri góðlátlega áminnandi, fór yfirað brjóstvirkinu og hló með sjálfum sér. Stephen Dedalus kom upp, fylgdi honum þreytulega hálfa leið, settist á brúnina á skotpallinum og virti hann fyrir sér þegar hann stillti speglinum á brjóstvirkið, dýfði burstanum í skálina og sápaði vanga og háls.

(s. 3-4)