Ódáðahraun

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008
Flokkur: 


Af bókarkápu:

Óðinn R. Elsuson, sem lesendur kynntust aðeins í Skipinu, er harðsvíraður glæpamaður sem einn daginn situr uppi með dularfullt óskilabréf. Bréfið opnar honum dyr inn í heim viðskipta og hlutabréfakaupa og fyrr en varir er undirheimakóngurinn komin í stríð við helstu auðjöfra landsins. Óðinn er síðasta íslenska hálftröllið, heljarmenni sem vekur í senn ótta og aðdáun og vílar ekkert fyrir sér þegar peningar og völd eru annars vegar.


Úr Ódáðahrauni
:

Mánudagur
Um leið og Óðinn leggur Fordinum á bílastæðinu við Þjóðminjasafnið fær hann á tilfinninguna að eitthvað sé ekki eins og það á að vera. Hann klappar á vasana á leðurjakkanum og finnur lykilinn sem gengur að geymsluhólfi númer þrjátíu og eitt í hliðarvasanum hægra megin. Í innanávasanum vinstra megin eru farseðillinn og vegabréfið. Er hann að gleyma einhverju? Nei, allt ER eins og það á að vera. Af hverju þá þessi skrýtna tilfinning? Er búið að ræna hólfið?

Eins og fyrri daginn skilur Óðinn pallbílinn eftir í gangi á meðan hann sinnir erindinu. Það tekur því ekki að drepa á vélinni fyrir svona stutt stopp. Það er dimmt inni í anddyri safnsins og sjálfvirku glerdyrnar opnast ekki þegar Óðinn gengur upp að þeim. Hvað er þetta? Hann gengur þrjú skref til baka, lyftir handleggjunum og gengur aftur að dyrunum en ekert gerist. Hann lemur með lófunum á glerið, sem nötrar eins og trommuskinn.

,,Hver andskotinn...! tautar Óðinn og lítur á úrið sitt og síðan inn í anddyrið. Klukkan er rétt rúmlega þrjú en það er ekki hræðu að sjá inni, ljósin eru slökkt og ...

,,Nei, nei ... NEEEII! öskrar Óðinn um leið og hann les aftur og aftur það sem er ritað með hvítum stöfum á glervegginn við hliðina á dyrunum:

Lokað á mánudögum

Er mánudagur? Já, það er mánudagur! Auðvitað er MÁNUDAGUR! Í bræði sinni rífur Óðinn upp steinsteypt blómaker, lyftir því upp fyrir höfuðið en augnabliki áður en hann stígur eitt skref fram og fleygir níþungum steypuklumpinum gegnum dyrnar rennur æðið af honum og hann lætur rúmlega meters hátt kerið detta niður á hellulagða stéttina, þar sem það kubbast í marga hluta.

,,Ég trúi þessu ekki! fnæsir hann og sparkar mold, steypubrotum og blómaleifum af skónum og gengur til baka að Fordinum. Hann situr drykklanga stund í kyrrstæðum bílnum, kreppir hendurnar um stýrið, andar hratt inn og út um þandar nasirnar, japlar á dauðum vindli og hlustar á vélina glamra í takt við hjartað í brjóstinu. Eftir smástund dæsir hann, tekur upp símann og velur númer úr minninu.

,,Já, góðan daginn! Ég þarf að breyta flugi!

(60-1)