Ó fyrir framan

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Myndir: Steingrímur Eyfjörð Kristmundsson.

Úr Ó fyrir framan:

Litur orða Ég man að þegar ég var lítill höfðu orðin lit. Mér nægði að lygna aftur augum og hugsa eða segja eitthvert orð, þá sá ég skýrt fyrir mér litinn á því: GREIÐA, KEX, HUNDUR, GAMAN, HAFLIÐI . . . Svo virtist sem liturinn tengdist ekki á nokkurn hátt merkingu orðanna. Ég man að GRAS var ekkert endilega grænt, LOFT blátt eða JÓL rautt. Systir mín sá allt aðra liti en ég og við skemmtum okkur oft við að bera orðin saman. Lágum úti í grasi með lokuð augu og spurðum til skiptis: Hvernig finnst þér AUGA, hvernig finnst þér BORÐ, hvernig finnst þér KÚKUR? Það var ekki nema örsjaldan sem við vorum sammála, stundum bar svo mikið í milli að það olli deilum, ég þurfti að færa rök fyrir mínum lit og hún sínum, en fljótlega lærðist okkur þó að um þetta efni var ekki deilandi frekar en smekkinn. Eins og svo margt annað gott hvarf mér þessi hæfileiki. Kannski gerðist það þegar ég lærði að lesa. Ég veit það ekki. Allt í einu var hann bara horfinn og skildi ekkert eftir sig nema minninguna um að svona hefði þetta verið. Ekki man ég litinn á einu einasta orði eins og hann var. Flest urðu þau alveg litlaus nema eitt og eitt sem hefur litast af eigin merkingu: SÓL, HAF, ELDUR, MOLD. Þó kemur það fyrir ef ég opna góða bók að það er eins og djarfi fyrir daufri slikju upp af einstaka orði, helst í ljóðum. En hún hverfur á augabragði eins og hún sé ljósnæm. Áreiðanlega eru þetta ekki upphaflegu litirnir. Mér sýnist mest um ljósgrátt, fölbleikt og einhvern einn enn sem ég kann ekki að nefna.

(bls. 143-144)